mánudagur, 11. febrúar 2008


Frábært veður í dag, við mæðginin fórum í góðan göngutúr um Rhosllannerchrugog og sáum nokkra íkorna sem er alltaf gaman. Við erum í fríi, svona eiginlega, Lúkas er í miðvetrarfríi og ég er heima hjá honum í dag, á morgun og svo aftur á fimmtudag. Voða næs þriggja daga vinnuvika. Við ætlum í sund á morgun, ég held að það sé ár síðan við fórum síðast. Sjálf er ég ekki byrjuð aftur að synda eftir jólafrí, hjá mér eru enn jólin. Finn á mér að þetta fer að koma svona með hækkandi sól. I can feel it in me waters, svona eins og Eileen segir stundum.


Kieron bauð Lúkasi líka heim í dag. Ég fór svona með hálfum hug enda Kieron sá sem við héldum að væri að vera vondur við Lúkas í skólanum. Ekki var að sjá í dag, þeir voru voða glaðir að hittast, hlógu og pískruðu og skemmtu sér vel. Ég sagði við Ceri að ég væri hálfringluð og útskýrði fyrir henni að Lúkas kæmi stundum heim úr skólanum svo ofboðslega sorgmæddur og gréti sáran af því að hann ætti enga vini, og að Kieron og Josh væru að segja við hann ljóta hluti. Það hefur reyndar ekki gerst núna í tvær eða þrjár vikur en að ég væri samt með varann á mér. Hún baðst afsökunar en vildi meina að Kieron hefði verið ómögulegur í dáltinn tíma einmitt fyrir þremur vikum vegna vesens með pabba hans. Eftir því sem hún best vissi þá kemur Kieron heim úr skólanum og segir að Lúkas sé besti vinur hans ásamt Josh. Kennarinn hans Lúkasar kom af fjöllum líka þannig að vonandi var þetta bara stutt tímabil sem er nú yfirstaðið. Ef ekki þá erum við að fylgjast með og getum vonandi stýrt Lúkas í gegnum erfiðleika. Hann tekur greinilega öllu alvarlega og er viðkvæm sál.

Engin ummæli: