laugardagur, 25. apríl 2009


Ég fann málningu sem málar yfir plast (melamine) og tók mig loksins til í morgun og málaði eldhússkápana. Upprunalega hugmyndin um að kaupa alveg nýtt eldhús hefur alveg verið sett í frost. Ég sé ekki tilgang í að eyða pening í nýtt eldhús þegar það væri miklu sniðugra að stækka við húsið og kaupa svo nýtt eldhús eða hreinlega að kaupa stærra hús og setja nýtt eldhús í það. Þannig að ég druslaðist loksins til að hressa upp á skáphurðarnar. Svona til að gera það besta úr því sem til er. Þær eru sumsé plast sem var áprentað með eftirlíkingu af striga. Alveg sérstaklega fallegt svona upp úr 1972. En virkar ekki alveg núna. Og sérstaklega ekki fyrir manneskju sem vill bara hafa allt hvítt. Og ér er líka svona þrumuánægð með útkomuna. Aðal ástæðan fyrir ánægju minni, fyrir utan hversu snyrtilegra og bjartara eldhúsið er, er sú að ég gerði þetta almennilega. Ég skrapaði skápana með sykursápu, pússaði með sandpappír og setti málningarteip yfir þá hluta sem ég vildi ekki hafa hvíta. Svona vönduð vinnubrögð eru bara nánast óþekkt hér hjá mér. Ég geri eiginlega allt sem ég geri svona frekar illa. Kannski að það sé bara von fyrir brussuganginn í mér eftir allt!

5 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Þetta er svakalega fínt hjá þér dama. Ég sé að nýju bollunum er smekklega styllt upp fyrir myndatökuna. Hlakka til að sjá allt nýja dótið þegar það kemur í hús.

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Það á víst að vera einfalt "i" í stillt.

murta sagði...

Hvað áttu við, uppstillt? Ég var rétt að fara að hella uppá! ;)

Guðrún sagði...

Hlakka til að sjá breytinguna!!

Hanna sagði...

Ansi hreint fínt hjá þér dama!
Ég er nú ekki viss um að ég sé sammála þessu með nýjungina í vönduðum vinnubrögðum, líttu bara á vinnuna og brögðin sem lögð hafa verið í Láka ;-)
Stórt knús til þín
H.