laugardagur, 27. júní 2009


Bretar er málglaðasta þjóð sem ég hef fyrirhitt. Það er nánast útilokað að lýsa þessu fyrir utanaðkomandi, fólki dettur sjálfsagt ekki í hug vingjarnleg og málóð þjóð þegar það er hugsað um Breta. Manni þætti að þeir eiginleikar væru kannski sunnar í álfunni. En ég er að segja ykkur ég hef aldrei kynnst öðru eins. Maður fær hvergi frið, allir eru röflandi við mann daginn út og daginn inn. Allstaðar fitjar fólk upp á umræðuefni; á strætóstoppistöð, í strætó, í biðröð í búðinni, við afgreiðslumanninn, á biðstofu, í vinnunni, allstaðar á maður von á að ókunnugur segji: "Lovely weather we are having, isn´t it?" eða "what a miserable day, isn´t it?" Og flestar setningar enda á "oh, well mustn´t grumble!". Og sonur minn og eiginmaður eru engar undantekningar, þeir röfla allan daginn, ég held að ég hafi aldrei hitt barn sem talar jafn mikið og Lúkas. Ég er búin að taka dálítinn tíma í að venjast þessu, er með vöntun á því sem mamma kallar spjallgenið. Hún er ekki með það heldur og ég hef verið smá óheppin þar því pabbi er með þetta gen, og Kalli fékk það frá honum. Mér fannst þetta rosaleg erfitt fyrst, vissi ekki hversu ýtarlega maður á að svara. En ég er búin að sjóast í þessu, það eru vissar setningar sem eru notaðar og þegar maður er búin að læra þær þá getur maður spjallað eins og innfæddur. Þetta er samt smá vandamál í vinnunni. Ég var farin að hafa svakalegar áhyggjur að ég væri að gera eitthvað vitlaust af því að ég var alltaf búin með öll mín verkefni langt á undan öllum öðrum. Þær hinar kvarta yfir stressi og tímaleysi og eru á barmi taugaáfalls yfir álaginu en ég vafraði um skrifstofuna í leit að fleiri verkefnum. Ég ákvað því að ég hlyti að vera að missa af helmingum af vinnunni. En gat ekki fundið neitt verra við mín verk en þeirra. Og svo fattaði ég hvað var að. Ég kem í vinnunna, vinn verkefnin mín og leita svo að fleirum, á meðan að samstarfsfólk mitt eyðir klukkustundum saman í spjall. Bara rölt um svæðið og stoppað og spjallað allan daginn. Ekki nema von að það sé engin vinna unnin! Ég er því byrjuð að æfa mig í þessu og hver veit nema að það sé hægt að þjálfa sig í spjalli svona eins og það er hægt að byggja upp vöðva?

Engin ummæli: