miðvikudagur, 24. júní 2009

Una og mamma báðu um þessa uppskrift. Mér finnst alltaf smá erfitt að gefa uppskriftir af því að ég bara sulla einhverju saman og sé svo hvað gerist. Ég man sjaldnast nákvæmlega magn og svoleiðis. En þetta er svona nokkurnvegin eins og ég man þetta.

Grænmetisbaka:

300 g fitusnauð kotasæla,
4 egg
1/4 bolli rifinn parmesan
2/3 bolli spelt eða heilhveiti
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
sketta af möluðum svörtum pipar
svetta af vatni

Allt hrært saman og svo setur maður út í grænmeti sem til er í húsinu eða skinku bita eða beikon bita eða bara það sem manni dettur í hug. Ég get ekki mælt magnið af grænmetinu, það er svona uþb 2 gulrætur, 2 courgettes, 10 sveppir, 1 blaðlaukur, smá brokkólí, gott handfylli af spínati, 2 kramdir hvítlauksgeirar eða bara það sem er til og það sem er gott. Svo smyrja lausbotna hringform með ólívu olíu og baka við 190 í 40 mínútur. Það er líka ógeðslega gott að rífa niður mozzarella og blanda saman við áður en bakað er en það náttúrulega hækkar aðeins hitaeiningar.
Og Kristín, portobello sveppirnir,þú verður að elda þá sjálf en það er ekkert mál! Ég læt uppskriftina fylgja með, þeir eru svo góðir.

Skafa tálknin innan úr sveppunum og setja svo á bökunarpappír inn í ofn með magann niður. 200 gráður í svona 8 mín. Steikja á meðan rauðlauk, courgette og spínat og smá ferskan basil í smá ólívuolíu á pönnu. Smá pipar. Smyrja svo léttum rjómaosti inn í sveppina, ausa skeið af mexíkó salsa, og svo vel af steiktu grænmetinu. Ofan á það fara svo feta fylltu paprikurnar. Ef það fæst ekki þá er alveg fínt að dreifa geitaosti yfir. Svo aftur inn í ofn þangað til osturinn er gullinn og bubblar. Portobello eru frábærir á grillið líka, grilla fyrst með magann niður og snúa svo við og fylla þá svo af söxuðum tómat, hvítlauk, basil og mozzarella, skella aftur á grillið og láta ostinn bráðna. Eða nota þá í staðinn fyrir hamborgara. Pensla með olíu, grilla og skella svo á brauðbollu með grænmeti og góðri aioli.

Engin ummæli: