fimmtudagur, 16. júlí 2009
Ég fattaði í morgun að ég er bara orðin sátt við sjálfa mig. Nokkuð sem er búið að vera svona að gerjast síðustu vikurnar en ég skildi þetta svo fullkomlega í morgun. Ég steig á vigtina og var að vona eftir 108. Þegar ég sá 109 þá jú, var ég ekkert hoppandi af gleði en mér var líka ekki jafn illa við og ég hélt. Og ég sá og skildi að þetta er svo mikið langtímaplan, öll ævin ef ég á að vera nákvæm, að það skiptir ekki máli hvað gerist eina vikuna. Það eru allar vikurnar samanlagt sem skipta máli. Ég á alltaf eftir að þurfa að passa mig. Vonandi bara að það verði eðlilegra og eðlilegra ástand en það verður sjálfsagt aldrei 100% eðlilegt. Þegar ég fattaði að ég hvorki brást við með "ég get allt eins hætt þessu núna, hvar er snikkersið?" né "ó, ó, ó ég verð að fara niður í 800 kal á dag og byrja að skokka með lóð á ökklunum" þá skildi ég að þetta verður allt í lagi. Það verður í lagi með mig. Þetta er loksins alvöru og komið til að vera. Þangað til að ég er komin niður í kjörþyngd ætla ég að halda áfram að vigta mig vikulega og fagna hjartanlega hverju kílói sem hverfur, en það skiptir kannski ekki alveg öllu máli hvort það tekur mig eitt eða tvö ár.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli