föstudagur, 11. september 2009


Ég byrja setningar alveg svakalega oft á "rannsóknir sýna að..." og það er vegna þess að ég hef komist að því að vísindin hafa verið mitt skæðasta vopn í baráttunni við bumbuna. Rannsóknir sýna núna að súpa er eitt það besta sem fólk sem vill léttast getur borðað. Ef maður fær sér kjúklingabita, kartöflu, gulrót og drekkur vatnsglas með þá verður maður svangur aftur mun fyrr en ef maður blandaði vatninu við máltíðina og borðaði í súpuformi. Vatn eitt og sér virðist nefnilega ekki stoppa við í maganum og er þessvegna ekki "fylling" eins og margir halda. En ef það er sett saman við matinn þá helst það lengur í maganum og efnið ghrelin sem líkaminn framleiðir þegar við erum svöng helst í skefjum. Ég er búin að vera að stússast núna í nokkra daga að prófa mig áfram með súpur, þó mér finnist þær góðar þá er ég nú lítið að elda þær. En nú þegar aðeins er farið að kólna úti er alveg tilvalið að fara að stússast í þessu. Ég er búin að vera að prófa mig áfram með kartöflusúpu sem sló svo í gegn á heimilinu að ég er búin að elda hana tvisvar og frysta í hentugum einingum. Það er náttúrulega alveg frábært að geta fryst, að hafa holla máltíð alltaf tilbúna er það alla mikilvægasta í þessu stússi öllu. Súpur eru ódýr og einföld lausn á máltíð þannig að meira að segja þó svo að maður sé ekki í megrun þá er alveg tilvalið að fara að skoða uppskriftir. Passa sig bara á brauðinu með.

3 ummæli:

Guðrún sagði...

...og nú verður uppskriftin að kartöflusúpunni að koma...

Harpa sagði...

Gamla góða grænmetissúpan er alltaf vinsæl á mínu heimili. Ef ég man rétt þá kenndir þú mér að gera hana, þ.e. stinga bara því grænmeti sem er til í pott, eiga niðursoðna tómata, tenginga og smá pasta. Þetta er alltaf mjög vinsælt hér. Það þarf ekki að vera flókið eins og þú segir!

Hafðu það annars gott um helgina.

Luv
H

Guðrún sagði...

Þetta heitir Elsusúpa á mínu heimili en kreppusúpa hjá Elsu. Varð til löngu áður en kreppan skall á.