fimmtudagur, 10. september 2009


Ég var að gæla við þá von að ég gæti tilkynnt hérna að Bacardi og Kók væri besta megrunarlyf í heimi og þó að það sé nokkuð gott, 200 grömm farin þessa vikuna, þá er það kannski ekki alveg það sem við erum að leita að. Ég er himinlifandi. Sambland af áti, drykkju og hnémeiðslum sem varna líkamsrækt og mér tekst samt að léttast aðeins.


Bretar eru svona að eðlislagi frekar innundir sig með ýmislegt. Þeim finnst til dæmis erfitt að hrósa og fá hrós. Allt er svona smá djók og eins mikið og þeir spjalla þá er oftast lítið spjallað um hluti sem skipta máli. Það hefur því komið mér á óvart að fólk er núna farið að stoppa mig í mismunandi hornum í vinnunni til þess að varlega impra á að ég hafi nú grennst aðeins. Svo undantekningarlaust gerist það sama. Fólk spyr hvað ég sé að gera og ég sé vonarneistann í augunum þegar vonin um að ég segi "ég er að taka inn þessa töfrapillu sem leyfir mér að lifa á kleinuhringjum, djúpsteiktum svínarifjum og snickers og samt grennast." Og svo vonbrigðin þegar ég segi að ég borði minna og hreyfi mig meira. Og þá kemur hin setningin; "ég vildi að ég hefði þennan viljastyrk." Og ég er búin að velta þessu fyrir mér fram og aftur. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en feitri. Mismunandi feitri en alltaf feit. Og ég man ekki eftir neinu sem ég hef viljað meira en að vera mjó. Ég held að ég geti gengið svo langt að segja að ef eitthvert almættið hefði boðið mér að velja um að vera mjó og heimsfrið þá hefði ég þurft að hugsa mig um. Ég hef viljað að vera mjó meira en að vera klár, að ganga vel í skóla, að vera í góðri vinnu. Að vera mjó er það eina sem ég hef í alvörunni viljað. Þannig að ef að það er eitthvað í heiminum sem maður vill svona mikið og það eina sem þarf að gera er að borða minna og hreyfa sig meira af hverju er ég ekki mjó og hef verið síðan ég var 12 ára? Þannig að ég get lofað með hönd á hjarta að þetta hefur ekkert með viljastyrk að gera. Akkúrat ekki neitt. Þarf maður viljastyrk til að vaska upp? Eða til að strauja? Til að leika Legó í 4 klukkutíma? Til að skrifa ritgerð, hell til að vakna klukkan 7, smyrja nesti og mæta í vinnuna á réttum tíma allavega 5 daga vikunnnar? Ekki kannast ég við að fólk noti gífurlegan viljastyrk til þessara verkefna. Nei, maður einfaldlega gerir þetta vegna þess að maður verður að gera það. Og það er enginn munur hér á. Ég hata að þvo þvott. Ég hata að flokka, stinga í vél, hengja upp, brjóta saman. Mér finnst meira að segja leiðinlegt að setja hreint aftur inn í skáp. En ég geri þetta samt allt saman án þess að hugsa mikið um það og svo reyni ég að finna leiðir til að gera þvottinn ánægjulegra verkefni. Og svo eru dagar þar sem ég bara sleppi því að þvo. Ég tók ákvörðun um að gera það að ánægjulegu verkefni að borða minna og hreyfa mig meira. Og mér hefur tekist það. Simple as that. Og það er stóra leyndarmálið. Að vakna á morgnana og taka ákvörðun að dagurinn í dag verði góður dagur. Já, og svo að öðruhvoru bara að sleppa því að þvo.
PS. Að hætta að reykja. Það krafðist viljastyrks.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

"Ég tók ákvörðun um að gera það að ánægjulegu verkefni að borða minna og hreyfa mig meira."

Þessi setning þín er allt sem segja þarf.
Hún er svörin við öllum spurningunum.
Skemmtileg og gáfuleg færsla.
Þú ert æði.

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla svo skemmtilega orðuð og gáfuleg. Það er þó greinilega ekki eins megrandi að drekka gin og tónik eins og romm og diet kók híhí :-)
Kv. Ólína