föstudagur, 25. september 2009

Mér hefur verið tíðrætt um áhuga Breta á kortum og hversu mér finnst skrýtin þessi árátta þeirra. Ég gef nefnilega ekki mikið fyrir kort sem eru gefin af hálfum hug, og það hefur verið svona það sem ég hef mest haft út á þetta að setja fyrir utan svo hversu ósmekkleg flest kortin eru. Eins og kortið sem Helga og Ólína djókuðu með að gefa mér til að þakka fyrir gistinguna. Bleikt, með loðinni kanínu og glimmer og nokkrum hjörtum. Gott ef það hafi ekki verið lítill íkorni með blöðru líka. Og ekki spyrja mig um Breta og jólakort! Þeir gefa jólakort hægri og vinstri til fólks sem þeir þekkja ekki, og senda bara með prentuðu kveðjunni, kvitta ekki einu sinni, og rífa svo kortið sem þeim er gefið upp fyrir framan þig og verða vandræðalegir þegar þeir lesa handskrifaða kveðju sem var skrifuð með alvöru hug að baki. En hvað um það. Í kvöld fékk ég nefnilega kort sem mér þótti afskaplega mikið til um. Við erum að breyta vinnuprósessnum í vinnunni og því fylgir að teymið mitt verður ekki teymið mitt lengur. Ég tek við alveg nýju fólki á mánudaginn. Og teymið mitt tók það upp hjá sér að kaupa handa mér blóm og sykurlaust tyggjó (þau vita að konfektkassi hefði ekki verið til neins gagns) og kvittuðu svo öll á kort þar sem þau þökkuðu fyrir samveruna. Ég var mjög snortin, enginn hinna stjóranna fékk svona frá sínu teymi. Og fyndast þótti mér að öll minntust þau á hversu gaman það hefði verið að fá að kynnast íslenskum stjórnunarstíl. Þannig að hér í Wales erum við Íslendingar sko alls ekki hryðjuverkamenn!

3 ummæli:

Harpa sagði...

Frábært, til lukku með þetta! Þú ert greinilega að standa þig vel hjá hennar hátign!

Varstu búin að heyra af rokinu og rigningunni hérna...... Ég neita að fara út!

murta sagði...

Já, hvað rugl er þetta með veðrið á Íslandi! Og ég sem á enga úlpu og ætla sko ekki að eyða pening í svoleiðis núna! Ég kem úr víking með kalsár!

Harpa sagði...

Nákvæmlega, ég er í því að skoða í skápana hjá stelpunum og spá í hvað ég eigi að setja þær í. Við eigum bara ekki fatnað fyrir þetta. Ég kann samt ekki við að láta þær fá kalsár þannig að ætli að ég splæsi ekki í ull, flís og annan hlífðarfatnað....

Við drekkum bara íslenskt brennivín í vatn og sítrónu þegar þú kemur. Treysti á að okkur verði jafnheitt og 1992 til 1994 ;-)