föstudagur, 6. nóvember 2009


Ég fjárfesti í fjórum fíkjum fyrir áframhaldandi ævintýri í grænu. Borðaði eina og ef ég skal segja satt og rétt frá þá var ég ekkert svakalega spennt. Ég hafði hlakkað dálítið til að borða þær; hafði gert mér einhverjar hugmyndir um exótískt og munúðarfullt bragð með örlitlu biblíuívafi. En raunveruleikinn fannst mér heldur bragðdaufur, klénn og vatnskenndur. Ég endaði á að kremja innihaldið úr hýðinu og hræra því saman við gríska jógúrtið mitt. Fínt þannig en fyrir £1.47 fannst mér þetta léleg skipti. Þegar ég fór svo að velta þessu fyrir mér þá ákvað ég það það er ekki bara fíkjur sem mér finnast lítilfjörlegar, það eru bara allir ávextir. Mér finnast ávextir ekki góðir. Nú fæ ég blússandi samviskubit við að viðurkenna þetta, ég á jú að vera í lífstíl sem myndi að öllu jöfnu eiga að innihalda neyslu ávaxta. En mér finnst grænmeti ægilega gott og hef verið ofsalega ánægð með allt nýtt sem ég prófa af því; má ég þá bara ekki bara borða grænmeti og bara sleppa ávöxtunum? Ég fæ til dæmis meira c vítamín úr brokkólí heldur en úr appelsínum. Skiptir þá nokkru máli þó ég láti ávextina að mestu leyti í friði og bara borði því meira grænmeti? Ég held að vandamálið frá minni hendi sé fagurfræðilegt. Mér finnst að til að viðhalda hollum lífstíl verði að vera falleg, litrík ávaxtaskál á borðinu. Annars er maður bara ekki bona fide lífstílari. Hvernig væri þá að setja bara saman fallega grænmetisskál á borðið? Má það?

3 ummæli:

Harpa sagði...

o dear, finnst þér broccoli í alvöru fallegt?

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Tómatar fara sérlega vel á borði - og eru best geymdir þar en ekki í kæliskápnum. Annars þá á ég frábæra mynd til að senda þér af gulu og bleiku brokkolí.

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Ahh, þetta átti víst að vera blómkál en ekki brokkolí.