sunnudagur, 15. nóvember 2009

Mér hefur svona hingað til þótt lítið til þess koma að vera að velta sér upp úr lífrænu, heimaræktuðu, vistvænu, "made from scratch" kjaftæði. Ef ég skal segja satt þá fannst mér fólk mest megnis misskilja þetta og flestir hljómuðu í mínum eyrum eins og að þeir héldu að þetta væri tíska og maður þyrfti að borða lífrænt súsjí og spínat með flaxolíu til að vera maður með mönnum. Þessvegna finnst mér ægilega erfitt að svona þegar ég er að dragast meira og meira í áttina að algerlega náttúrlegu efni, heimagerðu og lífrænt ræktuðu þá hljómi ég eins og nýsnobbari sem er bara að fylgja tískunni. Og þessvegna er ég ekki alveg með á hreinu hvort ég á að segja frá því að ég er farin að búa til minn eiginn súputening. Ég hef að undanförnu verið að safna í frystinn beinum og grænmetisafgöngum sem ég svo krydda, sýð, sigta og nota svo sem kraft. En ég bara get ekki að þessu gert. Eftir því sem kalóríurnar mínar verða dýrmætari tími ég bara ekki að eyða þeim í eitthvað gervi ógeð. Og af því að góði maturinn er dýrari tími ég ekki að henda og eyða í vitleysu. Þannig að þetta er bara allt að gerast svona óvart og í eðlilegri þróun. Þannig að eins og væna sneið af peruköku með þeyttum rjóma þarf ég að éta fordóma mína ofan í mig og viðurkenna að lífrænt ræktað er einfaldlega bragðbetri matur og betri fyrir heiminn og að hinir sem föttuðu þetta á undan mér mega hlæja að mér eins og þeim lystir. En ég fer ekki ofan af því að það er enn vænn hópur af kjánum sem taka þátt í til að tolla í tískunni.

Engin ummæli: