laugardagur, 14. nóvember 2009


Nú fara ævintýri í grænu aldeilis að taka flugið. Ég er búin að finna netverslun sem sendir heim lífrænt ræktað grænmeti og ávexti, og matvöru sem er framleidd og unnin algerlega heimavið. Ég kaupi bara kassa af blöndu af ávöxtum og grænmeti og fyrir 99 pens fæ ég þetta sent hingað heim á hverjum föstudegi. Næst á ég til dæmis von á að fá kaki ávöxt, eitthvað sem ég hef ekki einu sinni heyrt talað um áður hvað þá smakkað. Ég fæ líka spes salat kassa, fullan af því salat grænmeti sem er best á hverjum árstíma. Svo pantaði ég líka heimaslátrað lamb, allskonar ost og svona ýmislegt smálegt í eldhúsið. Verður ekki ferskara, Mark bílstjóri fer bara á rúnt um bóndabæi og nær í matinn og kemur svo með hann til mín. Þetta er aðeins dýrara en að kaupa í ASDA en ég er núna komin á það stig að ég borða minna magn, hendi engu og vil frekar fá alvöru mat sem er lífrænn, ferskur og styrkir smáfyrirtæki um allt hér í grenndinni. Að öðru leyti vil ég ekki ræða um pólitíkina í kringum lífrænt ræktaðan mat. Ég meika nefnilega ekki svona snobb í kringum það. En ég er kannski bara gamaldags.


Að öðru leyti er ég að spá voða mikið í framtíðina, svona hvað gerist næst og þannig. Það kemur til af því að við erum óvænt heima í dag, höfðum planað að fara á leðurblökuhátíð í Chester Zoo en það er bara stormur og ekki spennandi að fara út. Stormur hér þýðir alveg gífurleg rigning og leiðinda rok. Og flóð. Reyndar ekki hérna hjá okkur enda erum við uppi á fjalli, en niðri í dalnum myndast ár á öllum vegum. Þannig að við kúrum okkur hér inni og byggjum smá Legó og ég hugsa. Fínt bara.

Engin ummæli: