mánudagur, 21. desember 2009

Aðventan hefur farið fram nokkuð átakalaus hérna hjá mér. Ég einsetti mér það takmark að vera ekkert að éta mig neitt í gegnum desember mánuð og það hefur bara tekist. Það sem hefur ekki tekist er að breyta "allt eða ekkert" hugsunarhættinum sem ég glími við. Hjá mér er allt annaðhvort "fullkomið" eða "falleinkunn". Ég er búin að reyna allt sem ég get til að láta sjálfa mig skilja að það er ekki hægt að vera fullkomin (maður á að reyna það eins og mögulegt er) en á sama máta þá þarf maður ekki að gefa sjálfum sér falleinkunn og gefast upp þegar maður nær ekki fullkomnuninni. Það sem hefur gert það að verkum að mér hefur loksins tekist að léttast og halda því af mér að er að ég er ekkert að flýta mér. Sem þýðir að ég borða alvöru mat og fæ mér líka vitleysu öðru hvoru. En ég get ekki hætt að vera með samviskubit. Alveg sama hvað ég sé og skil að þetta er eina leiðin til að láta þetta virka þá finnst mér alltaf þegar ég fæ mér "eitthvað gott" að ég sé að falla. Og þessvegna kvíði ég fyrir aðfangadegi. Ég hlakka svo til að fá mér rjómagraut og Nóa konfekt og hamborgarhrygg og makkintoss og rauðvín og Baileys, og ég skammast mín fyrir að hlakka svona mikið til þess. Mér finnst að með því að hlakka til þá þýði það að maturinn ráði og ég sé búin að tapa. Ég veit að þetta er rugl, það er örugglega fullt af náttúrlega mjóu fólki sem hlakkar til jólamáltíðarinnar en ég get ekki að þessu gert. Ég vil nefnilega ekki hugsa að "ég eigi nammið og matinn skilinn" því það breytir mat í verðlaun. Ég vil ekki gera þetta að svona miklu máli en ég get ekki annað en reynt að hugsa um þetta og plana því það er eina leiðin fyrir mig til að komast nokkurn vegin ósködduð frá þessu. Og á sama tíma er ég að hugsa "hvað er þetta eiginlega manneskja, þú færð þér bara að borða eins og allir aðrir sem halda upp á jól, og byrjar svo bara upp á nýtt á morgun!" Og er algerlega rugluð í ríminu. Alla vega, þangað til þá ætla ég að æfa og telja og vigta og detta ekki í súkkulaði dósirnar og kexpakkana sem eru út um allt í vinnunni og reyna að njóta aðfangadags eins og ég get. Ég er að læra þetta allt upp á nýtt og ég verð að muna það. Og það tók mig 35 ár að verða eins og ég er, ég breyti því ekkert alveg á nokkrum mánuðum.

Engin ummæli: