miðvikudagur, 9. desember 2009

Ég er algerlega hoppandi brjáluð úr vonsku. Alveg sótsvört af reiði og vonbrigðum. Eftir næstum 9 mánuði ætti ég að vera búin að ná meiri stjórn á tilfinningunum en ég verð bara að segja eins og satt er að þegar maður borðar að meðaltali 1300 kalóríur á dag, sem er 450 undir því sem ég þarf samkvæmt basal metabolic rate, eykur erfiðleikann í líkamsræktinni um helming og sleppir frídeginum, þá getur maður ekki að því gert en að verða urrandi illur þegar maður þyngist um 400 grömm. Ég ætla bara ekki að komast úr 3ja stafa tölu. Ég er núna búin að eygja það í svo langan tíma að ég er bara orðin kúguppgefin. Mér finnst eins og að ég sé bara dæmd til að vera feit það sem eftir er. Ég legg allt mitt í þetta og aðeins til að láta vísindin svíkja mig. Sem þýðir að nú er sko aldeilis tími til að sanna úr hverju ég er gerð. Ef ég get veðrað þetta af mér og það yfir hátíðarnar, þá veit ég að það er ekkert í heiminum ómögulegt. Og hér er það sem ég segi :"Fokk jú smákökur, súkkulaði og ostabakki. Fokk jú rauðvín og hnetur og lagkökur. Það er ég sem ræð. Bring. it. on."

Slaka svo á og aaaaannda í gegnum nefið. Ahhhhh. Mig hefur held ég bara aldrei langað jafn mikið í neitt og mig langar í svona i-pod. Ég er búin að biðja um hann í jólagjöf núna í tæpt ár. Bind alveg sérlegar vonir við hann í sambandi við líkamsrækt sjáið til. Ég hef það á tilfinningunni að með i-pod í eyrunum, raftengd við berjandi rokkmúsík verði ég gjörsamlega óstöðvandi úti á einhverju skoppi. Ég er hætt að vera með leyndar og óleyndar vísbendingar og ábendingar, bið bara um hann á hverjum degi. Vona svo bara að ég hafi verið nógu góð stelpa í ár.

5 ummæli:

Asta sagði...

Djí'mar, Djö'mar, Vá'mar....jeremías og allir hans vinir! Láttu þá heyra það og hana nú! btw.... þú verður algjörlega alltaf í hásuður með þennan i-pod, sé það skrifað í skýin - og ekki ljúga þau ;)

Hanna sagði...

Ég er líka alveg handviss um að komi i-podinn ekki í jólapakkann, þá mun e-r jólasveinninn finna hann í búðinni eftir jólin. Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi ;-)
og hey, þessi 400 g - áttu ekki bara eftir að fara að kúka?
;-) knús á þig
íþróttaapinn

Guðrún sagði...

"Kúkaðu bara meira," var ráð sem Kolbeinn gaf mér, aðeins 5 ára, þegar ég var að kvarta um að vera of feit.
Annað ráð frá mér: Bíttu á jaxlinn og bölvaðu í hljóði!
Eftir á að hyggja er það kannski vitlausasta ráðið. Æ, hvað veit maður.

murta sagði...

Ég anda, borða og kúka. Í þessari röð.

Guðrún sagði...

Hvort lærði Dónadúettinn af þér eða þú af honum?