sunnudagur, 17. janúar 2010

Árum saman hef ég verið heltekin af öfundsýki og reiði út í allt þetta granna fólk út um allt. Hvernig stendur á því að þau geta borðað eins og þeim lystir en ef ég fæ það sem ég vil þá fitna ég? Hvernig dirfast þau svo að segja við mig að maður þurfi bara að borða minna og hreyfa sig meira? En það hefur núna runnið upp fyrir mér ljós. Ég predika stanslaust yfir þeim sem vilja og vilja ekki heyra að það eina sem þetta snýst um eru kalóríur inn og kalóríur út. Og það er sama reglan fyrir grannt fólk. Grannt fólk þarf að passa sig alveg jafn mikið og ég. Og fyrir sum þau er þetta alveg jafn flókið og þetta er fyrir mig. Eini munurinn er að þau föttuðu að maður verður að passa sig og hreyfa sig áður en þau náðu hundrað og þrjátíu kílóum. Grannt fólk einfaldlega veit að það á að borða undir 2000 kalóríur yfir daginn hvort sem sú vitneskja er meðvituð eða ómeðvituð. Og þetta breytir öllu fyrir mér. Ég sé núna að ég er ekkert spes eða fötluð eða að þetta sé einkaklúbbur sem ég er ein í. Og þessi tilfinning um að það skilji enginn hvað ég á erfitt er horfin. Við erum öll í sama báti. Og eins erfiður og róðurinn er þá er ég guðslifandi fegin að vita að það er ekki bara ég með árarnar í gangi.

1 ummæli:

Asta sagði...

Segi nú bara og skrifa eins og drottningin sjálf; 'það er víst enginn eyland' :)