laugardagur, 9. janúar 2010


Tahdah! ég er búin að fatta vandamálið. Mig LANGAR til að misstíga mig. Því þá hef ég LEYFI til að segja að mér sé búið að mistakast og þá MÁ ég halda áfram að skófla upp í mig. Af því að alveg sama hvað ég reyni að segja sjálfri mér að eitt lítið feilspor skipti ekki máli, maður verður bara að halda áfram, þá þrái ég ekkert heitar en að gefast bara upp svo ég fái bara að borða og borða og borða og borða. Nú þegar ég er búin að skilgreina vandamálið þá er bara að finna út hvernig skal laga það. Ég veit að mig langar ekki til að vera feit, ég veit að mér líður milljón sinnum betur við að vera mjó, og ég veit að til að vera mjó þá einfaldlega má ég ekki borða eins mikið og mig langar til að gera. Það er í alvörunni ekki mikil fórn. Nú þarf ég bara að læra að hugsa svona af röksemi ALLTAF. Það er ekki eins og ég fái aldrei aftur að borða. Og það er ekki að ég þurfi að borða ALLA kökuna. Ég veit þetta allt saman. Þetta er sama hugsanaferlið aftur og aftur og aftur.


Í gær þegar ég skrifaði fyrri hluta þessa pistils var ég heltekin af "failure" hugsunum, hegðunarferlinu sem leyfir mér að borða of mikið. Í morgun eftir sérstaklega hressilega líkamsrækt er ég öll önnur, get hugsað skýrt og af skynsemi. Ég ætla að reyna að takast aðeins á við hegðunarferlið mitt af meiri alvöru, hef ekki tök á að komast í alvöru meðferð hjá sálfræðingi en er búin að kaupa mér nokkrar bækur um efnið og vona að það sé ekki of mikil poppsálfræði í gangi. Svo verð ég að koma mér upp tækni sem hjálpar mér í gegnum þessi "örvæntingartímabil". Þegar skynsemin víkur og ég ræð ekki við neitt. Á sama tíma og ég er þakklát fyrir að að mestu leyti er í lagi með mig, ég skil hvernig þetta allt saman virkar þá verð ég líka að viðurkenna að þegar örvæntingin tekur yfir, og það á eftir að gerast aftur, þá gleymi ég öllu sem ég hef lært.

Mig langar á vissan hátt voðalega lítið að birta þetta. Mér finnst eins og að undanförnu hafi verið mjög dapurt í mér hljóðið og svona smávegis uppgjafartónn. Og ég fattaði að ég var farin að reyna að draga úr skriftum um hvernig mér líður í alvörunni af því að ég vildi ekki skemma ímyndina sem ég hélt að ég hefði. Svona súperlífstílsbloggari sem væri búin að finna "lausnina!" En tilgangurinn með blogginu er að skrifa mig frá tilfinningunum og þetta síðasta sálarrannsóknarferðalag er líka búið að vera hluti af ferlinu. Og þó það sé kannski ekki alveg rétt frá sagt þá er bloggið fyrir mig eina, ég er oftast ekki mikið að spá hvort einhver lesi. Og ég ætla ekki að byrja á því núna. Og mér líður líka miklu betur.

6 ummæli:

Guðrún sagði...

Ég get sagt þér það að það er fullt af fólki sem les bloggið þitt. Ég fæ oft athugasemdir "læf" frá fólki sem les þig. Athugasemdirnar eru af ýmsum toga eins að þú sért skemmtilegur penni, fólk dáist af dugnaðinum í þér, öfundar þig af árangrinum, finnast pælingarnar þínar frábærar og að þú sért æðisleg. Ég verð bara montnari og montnari.

Asta sagði...

Nákvæmlega - það þarf sérstakt hugrekki, Baba mín til að deila bæði þessu frábæra og því sem maður heldur að sé ekki svo frábært... en einmitt af því að hugrekkið er til staðar er reynslan öll miklu raunverulegri og mannlegri. Takk fyrir að deila -
Knús og kossar til þín frá East Grinstead, þín Á
ps. Djö... var ég fegin að heyra með hafragrjónin lífrænu ;) Hlakka til...

Nafnlaus sagði...

Já það er rétt hjá mömmu þinni að það er verið að tala um að þú sért skemmtilegur penni og hvað þú sért búinn að vera mikil hetja!! :-)
Orðin hafa skilað sér hingað á Álftanes og ég er svo sannarlega sammála gamalli vinkonu að hún Svava sé snilldarpenni!!
Þú ert duglegust!!! :-)

Kveðja

Helena

Nafnlaus sagði...

Góðar pælingar og takk fyrir að deila þeim með okkur. Ég er svo stolt af þér flotta vinkona mín og veit að þetta er sko ekkert einfalt mál.

Tek undir með hinum það eru margir sem lesa bloggið þitt og hafa gaman og gagn af. Ég er stolt af því að eiga svona klára og frábæra vinkonu.
Love, Lína

Hulda sagði...

Ég les þig alltaf elsku frænka, þó ég kommenti sjaldan. Mér finnst þú standa þig frábærlega og þetta er einmitt ekkert einfalt mál að losa sig við ávana og rútínu. Helvítis ströggl bara. Stend með þér og veit að allt gangi upp hjá þér og þú skottist upp á fjall í sumar :). Kem með þér ;). Elska þig dúllurassgatið mitt og sakna þín alveg óendalega mikið!

Harpa sagði...

Sammála öllum hér að ofan. Þú ert langflottust og duglegust og mátt ekki gefast upp þó erfiðir tímar komi. Þeir koma því miður alltaf öðru hverju.

Ég les hér á hverjum degi og yfirleitt oft á dag þó ég kommenti ekki alltaf. Síðan fer ég um bæinn og segi öllum hvað ég eigi sniðuga og duglega frænku og segi fólki frá pælingunum þínum. Þó þú sért að hugsa þetta mikið út frá því að grennast þá eiga margir pistlarnir þínir við svo margt annað, bara til dæmis í sambandi við jákvæðni og að hafa trú á eigin getu. Að lesa þetta hjálpar mörgum sem eru að gagna í gegnum allskonar breytingar.

You go girl!