mánudagur, 1. mars 2010


Í dag halda Veilsverjar upp á St. David´s day eða Dydd Gŵyl Dewi Sant sem er svona nokkurs konar þjóðhátíðardagur. Dewi Sant þessi var frá Wales og hjálpaði til með ýmiskonar kraftaverkum á 7.öld. Velski fáninn blaktir í vindinum og allstaðar sést í páskaliljur sem er þjóðarblómið hérna. Ég sendi Láka í skólann í rugby skyrtunni sinni og flestar stelpurnar voru í hefðbundnum velskum búning. Upphlutur og svart pils með hvítri pífusvuntu og stór svartur hattur. Ég smellti blaðlauk í kjúklingabaunakássuna mína til að vera með í hátíðarhöldunum en sagan segir að velskir þjóðernissinnar nældu blaðlauk í barminn til að greina sig frá enskum hermönnum á 12. öld þar eð það var lítill munur á herklæðunum. Breska ríkistjórnin bannaði svo að blaðlaukurinn væri notaður sem tákn Veilsverja af því að hann þótti minna um of á þjóðernishyggju. Og páskaliljan því kosin í staðinn. Enskir reyndu sitt besta til að drepa niður velskuna, þeim tókst að útrýma gelískunni í Írlandi og Skotlandi en sem betur fer eru velskir fjallabændur þrjóskasta kyn í heimi, minna helst á rollurnar sem þeir halda og velskan því enn á lífi og dafnar vel. Er nema von að það sé enn smá rígur í þeim hérna út í Englendinga? Veilsverjar eru skrafhreifnir og einfalt fólk, það er mikið til í þeim einnþá svona smá heimóttarháttur. Þau voru hér á árum áður guðhrædd og margir sem fóru um heiminn til að boða kristna trú. Hér eru enn kirkjur á hverju horni þó svo að þær standi nú allar tómar. Hver fjölskylda átti sína kirkju og við hliðina á henni sinn pöbb. Nú er það bara pöbbinn sem er enn opinn. Enda sagði eiginmaður minn að það væri líklega engin tilviljun að Íslendingar völdu Dydd Gwyl Dewi Sant til að gera bjórinn löglegan!
Ég brallaði saman alveg sérlega góðum rétti um helgina ætla að láta uppskrift fylgja með í dag. Maður skvettir cider vinegar, góðri ólífuolíu, sítrónusafa og sinnepi í skál og hrærir saman. Smá salt og pipar og kannski basil ef til er. Ég hugsa að við séum að tala um svona tæpa matskeið af hverri einingu. Svo má marinera í þessu grænmeti: sveppi, laukbita, papriku, courgette, ætisþistil eða það sem manni dettur í hug og þræða svo upp á tein og grilla inni í ofni í 20 mínútur. Geggjað alveg hreint og svo gott að það má borða þetta sem aðalrétt með til dæmis bakaðri kartöflu. Marineringin er líka rosalega góð til að búa til kjúklingaspjót. Þá marinerar maður bringu, kubbar svo og þræðir á spjót með grænmetinu. Gott heitt eða kalt. Nomm nomm.

1 ummæli:

Harpa sagði...

Til hamingju með daginn. Þessi uppskrift hljómar vel. Ég er ekki frá því að eiga svipaða uppskrift þar sem kjúklingurinn er látinn marinerast í þessar blöndu, steiktur á pönnu í litlum bitum (eða grillaður á spjóti) og hent síðan í skál með spínati, perum (skornar í munnbita), hnetum og smá geitaosti. Mjög gott kjúklingasalat.