fimmtudagur, 3. júní 2010
Nú er það ljótt. Ég gersamlega maukaði á mér hnéð í morgun. Og ef þetta væri ekki svona vont þá væri ég flissandi yfir hvað ég er mikill gonkóli. Ég var komin á góðan sprett, var rétt að komast að erfiða kaflanum á þriðja kílómetra þegar eitt af "guilty pleasures" hallærislegu lögunum mínum kom á i-poddinn. Og án þess að muna eftir því að ég var á 10 km hraða byrjaði ég eitthvað að slá trommutaktinn út í loftið, missti hlaupataktinn og snéri upp á hnéð svona líka svaðalega. Það er núna fjórfalt á þykkt og það er meira að segja blár blettur á því sem hefur aldrei gerst áður, svona eins og það hafi blætt eitthvað þarna inni í því. Þannig að enn eru hlaupin komin á smá pásu. Ég get illa labbað, hvað þá hlaupið. Ég er ekki hætt, andskotakornið ég hætti ekki að hlaupa fyrr en það detta af mér táneglurnar, en ég verð að taka smá pásu. Verst þykir mér ef þetta þýðir að ég geti ekki gert hnébeygjur (squats) því ég er komin upp í 40 kíló þar og vil allsekki stoppa núna. Ég er nefnilega ekkert smá kúl með stöngina á öxlunum. Sjáum til í fyrramálið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli