Ekki er laust við að ég hafi barist við heimþrá um helgina. Það er alltaf verra svona þegar eitthvað sérstaklega íslenskt og svo sérstaklega Þorlákshafnarlegt er að gerast eins og núna að missa enn og aftur af Sjómannadegi og Hafnardögum. Þannig að ég þurfti að passa að ég væri upptekin til að vera ekki í fýlu. Það er svo mikil tímasóun að eyða deginum í fýlu. Skrýtið samt hvað ég er enn ekki alveg tilbúin til að flytja heim. Ég og Lúkas fórum þessvegna í glampandi blíðu til Chester á meðan Dave greyið fór í vinnu. Og gerðum það sem okkur finnst allra skemmtilegast í öllum heiminum: eyddum peningum sem við eigum ekki til. Það er nefnilega svo gaman núna að geta bara labbað inn í búðir og séð eitthvað á rekkanum, farið og mátað og það ekki bara passar heldur er stundum of stórt! Hver hefði trúað að þetta myndi einhverntíman gerast? Við eyddum dágóðum skilding í GAP, enda barnafötin þar æðisleg og Láka bráðvantaði stuttbuxur og boli. Sjálf fékk ég afskaplega fallega blússu og svo æðislegan kjól í Next. Við spókuðum okkur um, það er alltaf svo gaman að labba um Chester, ég mæli eindregið með henni sem helgarferðarborg, frábært að versla, æðislegir veitingastaðir, gott skemmtanalíf og svo ofboðslega fallegar byggingar. Og svo er náttúrulega hægt að heimsækja mig. Reyndar mæli ég með Wrexham líka, hér er ódýrt að versla og mikið stuð um helgar en kannski ekki jafn menningarlegt og í Chester. Hér búa nefnilega mestmegnis druslur og dólgar. Við fengum okkur Frappucino og Lúkas fékk sér ostaköku. Spekúleraði svo mikið í því afhverju honum þætti ostur vondur en ostakaka góð. Ég er í góðum gír með "fjarlægð frá mat" æfingarnar mínar. Er komin á það stig þar sem mér er svona nokkuð sama um mat, borða bara af því að ég á að gera það. Þetta hentar mér rosalega vel núna, mig vantaði að taka allan æsing og spenning úr neyslunni, til að reyna að læra að þekkja líkamlegt hungur frá sálrænu hungri. Þetta er sko allt í heilanum á mér. Ég varð síðast svöng í alvörunni 1983. Síðan þá hef ég borðað af því að mig "langar í eitthvað gott" en ekki af því að ég er svöng. Og er núna ófær um að þekkja skilaboð frá líkamanum um að ég sé svöng. Ég get sleppt því að borða í tvo til þrjá daga án þess að finna sérstaklega til hungurs svo lengi sem ég fæ að drekka. Og það er náttúrulega ekki eins og það á að vera. Þannig að þessar tilfæringar allar hafa skilað mér svona ágætis skilning á líkamann og hvað hann þarf. Og svo er ég að læra að aðskilja það sem heilinn segir mér að ég þurfi. Og "eitthvað gott" er oftast skilaboð frá heilanum, ekki mallakút. Ég er aðeins búin að léttast þessa viku en ég er meira að fylgjast með hvernig ég passa í buxur sem eru núna aðeins of litlar frekar en vigtinni. Ég vigta mig eiginlega bara af gömlum vana núna og til að setja það inn í spreadsheetið mitt. Ég get ekki hætt að fylla það inn núna, ekki eftir svona langan tíma.
Í dag ætlum við svo í göngutúr, við ætlum að fara á opin sveitabæ þar sem hægt er að rölta um, tína jarðaber og gefa litlum dýrum gras. Það er alltaf gaman að gefa kanínum. Alveg jafn gaman og að vera á Hafnardögum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli