mánudagur, 7. júní 2010

Hér er spennan aldeilis farin að magnast fyrir Heimsmeistarakeppni í fótbolta. Og ég sé aðeins meira af þessu í ár af því nú er ég að vinna í Englandi. Veilsverjarnir eru ekkert of spenntir fyrir að Englandi gangi of vel, ég man fyrir fjórum árum þegar allir hér í Wrexham flögguðu fánanum frá Trinidad og Tobago af því að einn af þeirra mönnum spilaði þá fyrir Wrexham. Og af því að Trinidad spilaði við England og allir hér vonuðu að England myndi tapa fyrir þeim. En af því að Wales er ekki með þá er lítið skreytt. En á vinnustaðnum mínum eru flestir enskir og þessvegna eru núna komnir fánar og blöðrur upp um allt. Við erum öll byrjuð að veðja um hitt og þetta og allskonar leikir í gangi. Ég dró út Grikkland og vantar núna að þeir vinni svo ég fái £100. Frekar ólíklegt en þeir unnu jú Evróputitilinn fyrir nokkrum árum síðan þannig að það má alltaf vona. Dave minn tekur þessu aðeins alvarlegra en ég og er búinn að plotta út alla leiki sem þarf að taka upp og er búinn að fara til veðmangarans og byrja að veðja. Svo notar hann það sem hann vinnur til að veðja meira og svo framvegis. Hann að sjálfsögðu óskar Englandi alls hins versta eins og sannur Veilsverji, þó það sé nú svona smá "tounge in cheek." Það er nú ekki jafn svakalegt eins og Simon vinnufélagi minn sem er Englendingur er vonaði að England tapi vegna þess að hann getur ekki hugsað sér að sjá liðsmann úr Man. U sem fyrirliða landsliðsins lyfta heimsmeistarabikarnum! Svona er það að vera frá Liverpool. Sem er reyndar allt breytt nú þegar Stevie G er orðinn kapteinn. Jæja. Ekki nóg með að ég hlaupi, lyfti lóðum og borði spínat heldur er ég núna farin að röfla um fótbolta. Ég er farin að ná í naglalakkið mitt til að vega aðeins upp á móti þessari vitleysu.

Engin ummæli: