miðvikudagur, 7. júlí 2010

Bankinn minn og ég vorum ekki alveg sammála um hvernig hlutirnir ættu að vera. Og eftir heillangt japl, jaml og fuður þá viðurkenndi bankinn minn að hann hefði rangt fyrir sér og að ég hefði rétt fyrir mér. Sem er náttúrulega voðalega skemmtilegt. Bankinn minn virðist hinsvegar ætla sér að eiga síðasta orðið því þegar ég kom heim úr vinnunni í kvöld beið mín hér sending. Afskaplega fallegur kassi, innpakkaður í skínandi rauðan pappír, bundinn með silkislaufu og risastórt kort sem á stóð "Sorry! For all the inconvenience caused." Í kassanum er að sjálfsögðu stærsta tegund af konfekti frá Thornton´s, dökkt-, mjólkur- og hvítt súkkulaði, allt búið til eftir ýmsum evrópskum desert uppskriftum. Eitthvað finnst mér eins og bankinn minn sé bara allsekkert sorrí. Nei, því ef þeir sæju mig núna, með geðveikisglampann í augunum, og hvítglóandi hnúana greipta um stofuborðið til að passa að ég fari ekki inn í eldhús og ryksugi kassann í mig þá væru feitir bankakarlarnir sko örugglega skellihlæjandi að aumingja mér. En ég læt ekki undan! Þeir ná mér sko ekki. Þeir mega taka af mér vexti og vaxtavexti og ávaxta þá síðan í ofanálag, en þeir troða ekki í mig súkkulaði!

1 ummæli:

Harpa sagði...

Heyr heyr!