sunnudagur, 18. júlí 2010

Við eigum hús sem er óskaplega gamalt og lúið. Við hefðum átt að hugsa okkur betur um áður en við keyptum það svona vitandi að gömul hús þarfnast mikils viðhalds og við erum bæði gersamlega ófær um allt dytt og aðhald, nei viðhald. En krúttlegt er það og þegar það dimmir aðeins og ég kveiki á kertum er það voðalega notalegt. Allt er fallegt við kertaljós. En erfitt er að þrífa það og á sumrin sýnir sólin alveg sérstaklega vel allan skít og drullu. Láki vakti mig á laugardagsmorgun rétt eftir sex og þar sem morgunsólin baðaði rykið allt var ekkert annað að gera en að drífa sig í smá skúr, skrúbb og bón. Og þegar þrifum er lokið er gott að setjast niður og dást að hvítþvegnum veggjum og glansandi gólfi. Í fimm mínútur. Og svo er komin sletta af mjólk og seríós gumsi niður eftir eldhúsborðlegg. Og brauðmylsna. Og puttafar á hurðarhún. Og skítugt handklæði á baðherbergisgólfið. Og hálftómur kaffibolli á stofuborð. Og sandur á gólfið. Og og og og og... og maður man að það er bara hægt að dást að handverkinu í smástund. Það má bara slaka á í eina mínútu áður en verkið byrjar upp á nýtt. Hann var líka ljúfur dagurinn í dag til að byrja með. Ég bakaði grófar sex korna bollur, straujaði tuttugogfjórar skyrtur og svo fórum við til Wrexham á rölt og með Láka að keyra smá í go-kart. Settumst svo inn á Starbucks og fengum gott kaffi. Og síðan að við komum heim er ég búin að borða stanslaust. Stanslaust. Grófar brauðbollur og brauð með sultu og brauð með osti og brauð með smjöri og brauð með tómatsósu og sausage og hálfan pakka af dark chocolate digestives og diet kók og nokkrar oreo kexkökur. Var ég svöng? Nei, ekki rassgat svöng. Ég hlakka til á morgun þegar ónotatilfinningin yfirgefur magann og það sem mikilvægara er þegar hún yfirgefur hugann. Og án þess að geta skilgreint hvað það er sem gerist á svona dögum, dögunum sem ég ruglast svona svakalega í ríminu þá er mikilvægast fyrir mig að muna að það er bara hægt að setjast niður og dást að sjálfum sér í fimm mínútur. Ef maður stoppar og slakar á þá safnast ekki bara fyrir brauðmylsna á eldhúsborðinu heldur líka á bringunni. Þetta er verkefnið endlausa og það þýðir bara ekki að slaka á. Ekki í eina mínútu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott og góð færsla :) ... stundum er maður ógurlega mindless þegar maður borðar :Þ Ég þekki það of vel af eigin raun.

Gangi þér vel

barattan.wordpress.com

ragganagli sagði...

Það lenda allir í svona dögum þar sem allt er étið sem ekki er naglfast. EIns og við fyrsta bita verði maður andsetinn og ræður ekkert við sig. Sem betur er líðanin eftir svona daga svo mikill viðbjóður að það líður laaaaaangt þar til næst.

Sigurvegarar hrasa líka, það sem skilur þá frá hinum er að þeir snara sér aftur á fætur í stað þess að liggja i skítnum og grenja.
Þú ert sigurvegari mín kæra.

Koma svooo....

Einvera sagði...

Vá flott myndin af þér hér til hliðar - "undir 95" - þú ert bara rugl mikil skvísa! :)
Þú ert svo flott & æðislegt að lesa þig... keep on going my dear!