sunnudagur, 29. ágúst 2010

Lúkas nýtur morgunverðarins.
Ein að fríka út!
Dagurinn hófst á alveg dásamlegan máta þar sem Jones fjölskyldan safnaðist saman við morgunverðarborðið til að gæða sér á nýsteiktum ammrískum pönnukökum með ýmsu meðlæti. Þar bar hæst súkkulaði-og bláberjasósa frá Blue Sauce. Blue Sauce er framleidd hér í nágrenninu og er eitt dæmi um hvað er hægt að gera þegar maður neyðist til að finna sér eitthvað til að lifa af. En það er önnur saga. Ég setti líka á borðið fersk bláber og banana, hnetusmjör, hlynsíróp, sultur og annað fleira gott. Við fáum voða sjaldan tækifæri til að setjast svona og njóta stundar saman út af löngum vinnudegi okkar hjóna og þessvegna finnst mér lífsnauðsyn að gera smávegis úr sunnudagsmorgunmatnum. Veðrið úti var ekkert sérlega spennandi og þessvegna ákváðum við að í dag myndum við ekki fara í neina langa göngutúra en frekar að skoða eitthvað nýtt sem væri mestmegin innandyra. Það er rosalega margt að sjá og gera hér í kringum okkur og maður þarf að hafa sig allan við til að fylgjast með öllu. Í dag er hinsvegar aftur komin "matardagur". Ég hafði heyrt um Hawarden Estate Farm svona út undan mér fyrir nokkru og lengi langað að kíkja. Þar eru þeir með Farmer´s market og lítinn veitingastað ásamt að vera með útibú frá Pedlars sem er uppáhaldsbúðin min í öllum geiminum. Hawarden er lítið þorp aðeins fyrir utan Chester. Það er engu að síður í Flintshire og þar með innan Wales. Við erum rétt um 25 mínútur að keyra þangað, mest megnis eftir litlum sveitavegum, þar sem maður getur séð náttúruna alveg óspillta. Þegar við komum að búðinni vissi ég að ég væri að fara í gósenland. Byggð úr endurunnu efni og allt öðru vísi byggingarstíll en allt sem ég hef séð hér í Bretlandi. Og það stóð heima. Þegar inn var komið varð ég að draga djúpt inn andann til að róa mig niður.

Olíu"bar"
Ég hefði getað eytt hundruðum punda þarna inni. Hægt að tína sitt eigið grænmeti, hænurnar röltu um bílastæðið, skemmtilegir fítusar eins og olíubarinn þar sem maður fyllir sjálfur á olíuflösku, allskonar brauð og ostar í tonnavís. Ég lét mér nægja hvítlauksblandað heilkorna sinnep, porcini sultu, chili sultu, smá grænmeti, kaffiís, velskan brie og það sem ég er spenntust fyrir; sjávarsalti frá Cornwall. Alveg náttúrulegt og óunnið salt og þegar maður er kominn með svona háþróaða og fíngerða bragðlauka (sem eru að jafna sig eftir áralanga misnotkun) þá verður allt í einu spennandi að finna mismunandi bragð og áferð af einhverju jafn einföldu og salti. Ef ég mætti velja mér atvinnu akkúrat núna þá myndi það vera að eiga svona delicatessen sem selur bara svona djúsí óþarfa. Ég held að það sé bara ekkert sem gerir lífið skemmtilegra en fallegur og góður matur. Þetta er svo sannarlega búinn að vera dagur sem fullnægjir matardónanum í mér. Hann er aldeilis sáttur og kátur núna.

2 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Þetta er ekkert smá fallegur markaður hjá þér. Ég er abbó.

Hulda sagði...

ég er líka abó ;). Fallegur markaður og falleg kona :D