sunnudagur, 3. október 2010


Fuglahræðufjölskylda
Það er ekki oft sem hann Dave minn stingur upp á að gera eitthvað, og það sér í lagi þegar Chelsea v Arsenal er í sjónvarpinu, en engu að síður þá hafði einhver í vinnunni hjá honum minnst á að Hawarden Estate Farm Foods væri með lókal matarframleiðslu kynningu um helgina og hann vissi að mér finnst ekkert skemmtilegra en svona matarhátíðir. Sjálfur var hann spenntur fyrir heimagerðum pickles. Lúkas var svo seldur á hugmyndinni þar eð það átti að vera hægt að fá að ríða um á asna. Ég stakk upp á að fara núna snemma í morgun og þannig gæti Dave líka horft á leikinn, allir vinna. Mér tókst að halda spenningnum í skefjum, var með plan í huga um hvað ég ætlaði að kaupa og það stóðst hjá mér. Svo fengum við að smakka allskonar framleiðslu héðan úr nágrenninu. Í dag stóðu upp úr spelt hafrakökur sem ég keypti til að hafa með dádýrachili paté og sólblómafrækorna-og cacao nibs blandaðir hafrar í graut. Yndislegur sunnudagur, og aftur var matur í fyrirrúmi hjá Jones fjölskyldunni.


Afrakstur dagsins
Ég keypti eina litla fudge brownie og ætla að borða hana í kvöld og horfa á sunnudags romcom myndina á Sky og mér finnst það ágætt svona í vitleysu helgarinnar. Ég er reyndar búin að borða of stóra skammta af öllu um helgina. Og nú er eiginlega nóg komið hjá mér. Nú er ég farin að hlakka til að komast aftur í rútínuna - mig langar að gera fitutap að aðal fókusnum hjá mér og það þýðir að ég verð að hætta að vola svona hérna í von um klapp á bakið og "þú ert svo mikil hetja, þetta er bara fínt hjá þér" kommentum. Það er kominn tími til að ég segi sjálfri mér að halda kjafti og bíta í skjaldarrendur og taka þetta aftur eins og ég gerði í upphafi. Ef dagurinn er þannig að maður þarf orðið oft að taka ákvörðun um hvort maður eigi að borða eitthvað djúsí eða ekki þá er best að hefja daginn bara á að taka þá ákvörðun að maður ætli ekki að borða neina vitleysu í dag. Þá þarf maður ekki að velta því neitt frekar fyrir sér þann daginn. Og það er það sem ég ætla að gera héðan í frá. Ég vakna á morgnana, ég fer í ræktina og ég segi sjálfri mér að í dag sé dagur þar sem ég er búin að ákveða að borða bara það sem er á listanum, sé dagur þar sem ég er stolt af sjálfri mér allan daginn, sé dagur þar sem ég færist nær markmiðum mínum á markvissan hátt en ekki fjær þeim. Afhverju í ósköpunum að setja sér markmið og vinna svo ekki að þeim?

Engin ummæli: