föstudagur, 1. október 2010

Ég las afskaplega áhugaverðan pistil um markmið núna í vikunni. Sá sem skrifaði sagði að það væri sannað að þeir sem settu sér markmið sem miðuðu að því að einhverju vissu væru líklegri til að ná markmiðum sínum en þeir sem einsettu sér að því að komast frá einhverju. Að því leyti er maður líklegri til að ná markmiðum sínum ef markmiðið væri t.d. að; komast í stærð 12, geta hlaupið 5 kílómetra stanslaust, geta passað í rennibraut, geta lyft líkamsþyngd í hnébeygju og þar fram eftir götunum. Hitt er ólíklegra til velgengnis að setja það að markmiði að hætta að versla í fitubolludeildinni, að hætta að vera illt í hnjánum, að vera ekki fastur inni. Maður á að einbeita sér að því sem maður vill sjá í framtíðinni, ekki að því sem maður vill forðast. Ég hugsa að ég einbeiti mér að þessu. Ég sé mig nefnilega fyrir mér í framtíðinni. Ég er sterk og hraust, ég get hlaupið og ég get lyft, ég get labbað inn í hvaða verslun sem er og (ó mæ god get ég sett þetta á vísakortið?) keypt mér það sem ég sé. Ég er þreytt og pirruð og allt það en ég er líka fullfær um að sjá það sem framtíðin ber í skauti sér. Og framtíðin er björt. Hún bara getur ekki verið neitt annað. (Í framtíðinni er ég reyndar líka alltaf búin að vinna lottóið og opna delicatessen en það er önnur saga.)

Í öðrum fréttum þá sá ég fortíð mína í kvöld. Ég fór út að borða með nýju vinnufélögunum og ein stúlkan í hópnum er eins og ég var fyrir rúmu ári síðan. Mér fannst eiginlega óþægilegt að horfa á hana í kvöld. Hvernig hún togaði í peysuna svo hún hyldi betur magann, hvernig hún kláraði ekki pastað sitt, hvernig hún pantaði sér ekki eftirrétt (maður má ekki borða of mikið á almannafæri), hvernig hún sat aðeins aftur á bak til að virka minni, hvernig hún passaði sig á að stíga létt til jarðar svo hún virkaði léttari, hvernig hún reyndi að draga úr allri sinni lífsorku til að virka minni. Mér fannst þetta óþægilegt vegna þess að ég man hvernig þetta var, hvað þetta var mikil vinna. Þessi feluleikur, þetta að reyna að virka ekki jafn feit og maður er í alvörunni. Og ef ég á að vera hreinskilin þá er það minni vinna að léttast en að halda áfram að vera feitur. Ég ætla að einbeita mér að framtíðinni. Ég er of löt til að vera feit.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Rauðvínið dregur alla vega ekki úr pælingunum sem eru alltaf jafn skemmtilegar.

Lesandi sagði...

Það eru áhugaverðar pælingar í eftirfarandi færslu:

http://barbietec.com/subpage2.php?BloggID=3209

T.d. um frammistöðumarkmið og niðurstöðumarkmið :)