Mig langar til að halda að ég sé afvegaleiddur íþróttamaður. Það er að segja ég er er íþróttamaður alveg innst við beinið en ég hafði ekkert val um að verða neitt annað en fitubolla. Ef ég hefði alist upp einhverstaðar annarstaðar en í Þorlákshöfninni minni kæru, einhverstaðar þar sem boðið var upp á aðra íþróttaiðkun en sund, hefði ég kannski nært íþróttamanninn í mér af meiri alúð og leyft honum að vaxa? Ef ég hefði getað uppgötvað fyrr þessa ást mína á vöðvum, hefði ég aldrei leyft hlussunni í mér að dafna svona vel? Ég er að velta þessu fyrir mér af því að ég skil ekki alveg hvað hefur gerst til að breyta mér svona. Mér finnst að ég hafi aldrei hafa haft neitt val um að verða þetta feit. Mér fannst alltaf að þetta væri hluti af persónuleika mínum. Ég man t.d. eftir að hafa verið ægilega spennt þegar ég fattaði hvernig ég gat búið til mitt eigið nammi. Það var að sjálfsögðu mjög sjaldan til nammi á æskuheimili mínu, það var bara eitthvað spes. Það var alltaf verið að telja kalóríur. Þegar ég svo fattaði að það tók eina mínútu að henda saman í skál smjéri, sykri, kakó og kókós til að búa til ljúffengt krem sem hægt var að sleikja þá gerði ég það óspart. Ha! Það er sko hægt að komast í kringum reglur um laugardagsnammi ef maður er klár! Ég veit líka fátt betra en að kúra í sófa með góða bók og nammi og það hefur alltaf verið þannig hjá mér. Ekki man ég eftir neinni hreyfingu sem olli sama spenningi hjá mér og góð bók og nammi. (Ég lýg þvi reyndar, en það er víst ekki hægt að stunda heimaleikfimi sem keppnisíþrótt fyrir utan að mér skilst að amma sé að lesa.) Hversvegna er þá núna allt í einu betra en snickers að geta gert hnébeygjur? Afhverju fattaði ég þetta ekki þegar ég var yngri og hefði getað sparað sjálfri mér áralanga baráttu? Ég heyri stundum sagt að feitt fólk sé bara latt og að það skorti bara viljastyrk. Það ætti að dusta snakkið af bringunni og drífa síg út að hlaupa. Að það velji að vera feitt. En þegar matarfíknin byrjar áður en maður nær sex ára aldri hefur maður í alvörunni eitthvað val? Þegar maður er enn of lítill til að skilja afleiðingar þess sem maður velur að gera? Ég hef þekkinguna núna og ég geri mér núna grein fyrir og tek ábyrgð á ákvörðunum mínum. En ég er líka að berjast við 30 ára gamla vana og siði og það er meira en að segja það að breyta því. Ég verð bara að vera þakklát að afsnúni íþróttamaðurinn fær loksins að njóta sín. Það hefði nefnilega alveg getað farið svo að hann hefði aldrei séð dagsins ljós. Maður er þakklátur fyrir kraftaverk. Þetta er nefnilega verk sem þarfnast krafta.
Vigtin sýndi hálft kíló í mínus í morgun. Örugglega ólympísku glímunni að þakka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli