sunnudagur, 17. október 2010

I´m loving me!
Lúkas biður stundum um að fara á McDonald´s. Þar vill hann fá Happy Meal, sem hann hefur reyndar engan áhuga á, hann vill bara fá draslið sem fylgir. Best er ef draslið tengist bíómynd sem við höfum séð. Það er langt síðan við fórum síðast þannig að þegar hann spurði í gærkveldi hvort við gætum farið á Makkann í hádegismat í dag þá ákváðum við foreldrar hans að það væri í fínasta lagi. Dave af því að honum finnst McDonalds kjúklingasamlokur góðar, mér af því að ég sá út úr þessu smá búðarölt um Wrexham og í Holland og Barrett´s þar sem ég fæ hneturnar mínar. Ég fékk matarsendingu vikunnar í gær og hafði þar pantað dós af Ben og Jerry half baked rjómais af því mig langaði svo í hann. Hugsaði hann sem svona sunnudagsvitleysuna mína. Þannig að þegar ferð á McJónas var skyndilega líka í spilunum og ísinn til inn í frysti ákvað ég að ég þyrfti að spekúlera aðeins. Nú stóðu til boða nokkrir valmöguleikar. Ég gæti fengið mér kjúklingaborgara í hádegismat, 5-600 kalóríur, kallað það gott og sleppt Ben og Jerry. Ekki sjéns! Ef ég veit af ísnum inni í frysti er ekki nokkur möguleiki að láta hann vera fyrr en dósin er búin. Annar möguleiki var að kalla þetta bara fínan sunnudag, fá mér makkann og ísinn og segjast bara ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessu. Borga bara fyrir það í vikunni. Þriðji möguleikinn var að borða ekki, sitja bara með vandlætingar-og  helgislepjusvip og horfa á þá tvo graðga í sig og borða svo ísinn í kvöld. En ég vissi að þá myndi ég vera orðin hrikalega svöng þegar aftur væri heim komið og þar með byði ég hættunni heim á óhóflegu áti þá. Ég tók því fjórða kostinn og hætti þar með á augngotur og pískur. Ég setti tómat- og gúrkusneiðar ásamt smá osti á þýskt brauð, braut saman og setti í nestisbox. Ég tók með mér nesti á McJónas! Dave og Láki fengu sínar hamingjumáltíðir og ég tók mína upp úr töskunni minni. Svo sátum við og borðuðum og hlógum að mér og skemmtum okkur konunglega. Röltum í haustsólinni um Wrexham og ég gat hlakkað skýlaust til að borða ísinn minn í kvöld. Er ég klikkað skipulögð, klikkað sniðug eða bara klikkuð? Mér er eiginlega alveg sama, ég fæ Ben og Jerry að launum.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Þú ert frábær !!

Sissa sagði...

Mér finnst þú klikkað dugleg!