þriðjudagur, 19. október 2010

Ég var að skoða mig um á Bravissimo um daginn í þeirri von að finna eitthvað meira blúndótt og sexí í stað segldúkanna og hvalbeinsins sem vanalega halda Stærstu Brjóstum í Evrópu TM í skefjum. Ég verð að viðurkenna hálfgerð vonbrigði þegar það kom í ljós að þrátt fyrir að hafa minnkað um þrjár bakstærðir og fjórar skálar að ég er enn dæmd til að vera í matrónulegum búning. Ég sá líka að það voru til nokkur bikiní, í minni stærð, á útsölu. Mér datt strax í hug að hér væri komið ágætis markmið að stefna að og sagði því upphátt við Dave að ég myndi fara í bikiní í sumar. Fór svo út frá því að hugsa af hverju ég þyrfti endilega að verða þvengmjó áður en ég færi í bikiní. Ég hef alltaf þjáðst af ofurtrú á sjálfri mér, finnst ég vera sæt og klár, og fátt sem ég get ekki gert. Hversvegna er þá svona erfitt fyrir mig að yfirfæra þetta sjálfstraust á yfirmagann? Er allt þetta sjálfsálit bara orðin tóm? En það er einhvernvegin eins og það að fara í bikiní sé ekki í mínum höndum. Samfélagið segir mér og öðrum að það að bera á borð svona ófullkomnun og ljótleika eins og maginn á mér er sé hreinlega ógeðslegt og ekki fyrir aðra að þurfa að horfa upp á. Ég er núna alltaf að verða ánægðari með líkama minn. Ég get lyft og ég hef úthald. Og eftir því sem ég grennist meira sé ég alltaf meira og meira fallegt.Viðbeinin min, kinnbein, löng og sterkleg læri, grannir fingur, mjaðmabein, grannt mitti, vottur af rifbeinum, ávalar línur mjaðmanna. Og mig langar bara til að líða svona vel gagnvart líkama mínum. Hvort sem ég grennist meira eða ekki. Mig langar til að vera alltaf svona ánægð með mig eins og ég er núna. Mig langar ekki til að vera endalaust frústreruð yfir ófullkomleika eða því sem samfélagið hefur dæmt ógeðfellt. Og þessvegna ætla ég að segja að hvort sem ég verð mjó eða feit næsta sumar; um leið og sólin byrjar að skína ætla ég að opinbera náfölan magann. Ég er hætt að skammast mín.

1 ummæli:

fangor sagði...

þú getur alveg farið í bikiní og verði stolt, rannveig er megagella í bikiníi og ég líka þrátt fyrir 15 skurðargerða magann. áfram þú, ég dáist að þér!