fimmtudagur, 21. október 2010

Vigtin mín er búin að vera að sýna allskonar mismunandi jákvæðar og neikvæðar niðurstöður núna nokkra undanfarna daga. Og í gærmorgun sýndi hún bara alls ekki neitt. Ég tók því til við reikningslist og komst að þeirri niðurstöðu að batteríin væru búin. Rölti mér því í hádeginu í Maplin Electronics til að kaupa ný. Þegar í búðina var komið tók á móti mér huggulegur ungur maður sem var boðinn og búinn að hjálpa mér. Sagði mér margoft hvað hreimurinn minn væri fallegur og brosti til mín. Fann svo handa mér þessi skrýtnu, flötu batterí og svo var komið að því að borga. Hann spurði mig þá hvort ég vildi láta hann fá e-milinn minn svo hann gæti sett mig á póstlistann þeirra. Ég játti því og hann spurði míg þá um titil; "Are you Mrs or Miss?" Mrs svaraði ég og hann sagði þá "thats a shame!" Og brosti svo svakalega fallega til mín. Ég gat ekki að því gert en að vera upp með mér og ég var með bros á vör það sem eftir lifði dags. Ég er greinilega svona grunnhyggin að mér þykir gott að vita að fleirum en Dave þykir ég aðlaðandi. Það er bara alveg hreint ljómandi gaman.

Engin ummæli: