laugardagur, 13. nóvember 2010

Ég ummaði og ammaði lengi yfir því hvort ég ætti að biðja um hjálp. Það var eitthvað sem sagði mér að ef ég fengi aðstoð þá mætti ég ekki vera stolt af árangrinum. Ég hefði náð þetta langt sjálf og ég þyrfti að klára dæmið sjálf. En svo sá ég að mér. Það er ekkert minna varið í árangurinn þó ég fái aðstoð, þegar allt kemur til alls þá kem ég til með að vinna alla vinnuna. Og þegar ég spyr sjálfa mig hvað ég vil þá er svarið undantekningalaust að ég vil klára dæmið. Ég vil losna við 20 kíló í viðbót, ég vil verða miklu hraustari. Það nægir mér ekki að viðhalda þeirri stöðu sem ég er í núna. Og nú er sko aldeili stuð á bæ. Ég er komin með í hendurnar allt sem ég þarf til að vinna þetta verkefni og vinna það vel. Skipulagsnasistinn í mér rorrar um eins og í blautum draumi yfir öllu skipulaginu og excel-skjölunum og innfyllingu á listum og öllu því sem fylgir að gera þetta af einurð og staðfestu. Innri Hlussan skoppar um af kátínu af því að hún fær að borða svo mikið af mat og hún má eyða öllum deginum í að púsla saman uppskriftum og stússast í matargerð. Íþróttamaðurinn rymur af ánægju út af öllum þungu járnunum og áskoruninni sem felst í að bæta aðeins í. Sú eina sem er ekki alveg sátt er mjóa tíkin, henni finnst þetta ekki vera nógu mikil kvöl og pína, maður verður jú að þjást ef maður á að ná árangri. En ég hlusta ekkert á hana. Og planið virkar. Það svínvirkar alveg, spurningin er bara; virka ég?

Engin ummæli: