Það er algengt og eðlilegt þegar maður er að rembast við að breyta sér öllum og léttast og breyta lífstílnum og breyta siðum og venjum og öllu sem manni er tamt að það komi tími þar sem þetta er bara of erfitt, eða of stórt verkefni eða vonlaust. Það kemur sá tími þar sem maður sér ekki tilganginn, þar sem ekkert gengur upp þar sem maður hefur bara ekki lengur löngnina til að láta þetta allt saman ganga upp. Á þessum tímapunkti gefast flestir upp. Hætta þessu veseni bara og gamlir siðir og venjur taka sig aftur upp. Vanalega myndi þetta líka gerast hjá mér. Hingað til hafa allar tilraunir, alveg sama hvað þær byrjuðu glæsilega, farið út um þúfur. Í þetta skiptið held ég að það sem hafi skipt sköpum var að ég náði að halda hreyfingunni inni. Alveg sama hvað ég var að klúðra mataræðinu öllu saman þá mætti ég alltaf í ræktina. Alltaf. Og það er svarið. Alveg sama hvernig manni líður, hvort sem manni er illt, eða í vondu skapi, eða of feitur eða allir brjóstahaldarar skítugir eða maður er of þreyttur eða of bissí þá verður maður að mæta í ræktina. Og ef maður bara heldur áfram að mæta í ræktina þá fær maður verðlaunin. Maður hættir að vera í vondu skapi og kemst í endorfín vímu. Þetta er allt of huglægt atriði þetta að bíða eftir "hvatningu" (motivation). Með því að halda áfram að æfa býr maður til sína eigin hvatningu.
Ég er núna að njóta afraksturs erfiðisins. Ég er enn hérna. Ég horfi á sjálfa mig í speglinum og kemst ekki yfir hvað likami minn er fær um. Eftir öll þessi ár sem hann var bara gagnslaus hlunkur af spiki er ég núna að sjá merki um að hann er að verða stæltur og sterkur og hraustur. Og ég veit með 100% fullvissu að það er þessi tilfinning að líkami minn sé fær um að gera ýmislegt sem hefur breytt öllu. Ég veit að skapsveiflurnar eru stundum dálítið erfiðar að díla við. Suma daga er þetta bara ekki jafn skemmtilegt og mér finnst þetta akkúrat núna. En það skiptir engu máli af því að ég veit að næst þegar ég sveiflast niður á við þá mæti ég líka í ræktina og ég verð stæltari, sterkari og hraustari. Bara að halda áfram að hreyfa sig, það er það eina sem skiptir máli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli