sunnudagur, 7. nóvember 2010

Það er mjög ólíklegt að ég geti gefið upp á bátinn þá von að einn daginn "læknist" ég. Ég hef það afskaplega sterklega á tilfinningunni að daginn sem ég stíg á vigtina og töfratalan 75 kíló birtist þá þurfi ég ekki lengur að berjast við drekann minn. Ég veit alveg að lækning kemur ekki til með að gerast í alvörunni en þetta er það sem mig langar til að gerist. Og ég held að ég verði að halda í þessa von, þessa trú mína á "lækningu" til þess að halda þessu öllu til streitu. Ég er reyndar ekki haldin neinum grillum um að annað sem mér finnst vera ábótavant í lífinu lagist við að verða mjó. Mér finnst það vera allt of algengur hugsunarháttur hjá samfitubollum mínum, þetta að setja annað í lífinu á pásu þangað til spikið er farið. Málið er bara að allt sem hrjáir mig er tengt þvi að vera of feit. Líkamlega er það sársaukinn sem ég lifi með í hnénu alla daga ásamt því að vera ekki alveg jafn fitt og álkjósanlegt væri. Hitt sem verra er að þurfa að berjast svona alla daga. Við sjálfa mig. Þessi innri barátta er svo lýjandi. Að vera stanslaust hrædd við mat. Og á sama tíma þrá ekkert heitar en að fá bara að borða. Endalaust. Þá daga sem þetta er ekkert mál og skemmtilegt, þarf ég ekkert að spekúlera í þessu, og guði sé lof og dýrð, flesta dag er þetta ekkert mál og skemmtilegt. En svo eru það dagarnir þar sem ég brýt loforðin mín og þá daga verð ég að segja sjálfri mér að einn daginn verði ég heilbrigð og frjáls. Mér hefur alltaf þótt það skrýtið (og öfundsvert) þetta fólk sem segir setningar eins og "þú þarft bara að borða minna og hreyfa þig meira." Eða "þetta er bara spurning um að ákveða hvað þú vilt; viltu vera feitur eða mjór?" Eða "hvað aumingjavæll er þetta eiginlega? Slepptu því bara að borða nammi!". Ef þetta væri svona einfalt og auðvelt þá væri offita að sjálfsögðu ekki vandamál. Þetta ristir svo miklu, miklu dýpra en bara að sleppa snickersinu. En á sama tíma get ég lika alveg viðurkennt að ég skil ekki þetta væl í mér og hinum fitubollunum. Þetta er í alvörunni svo einfalt. Maður þarf bara að sleppa snickersinu! Ég er allavega engu nær um hvað er best að gera, eða hvernig er best að gera þetta. En ég held alltaf áfram að rannsaka þetta allt saman. Mér finnst alltaf jafn gaman að flakka um víðáttur veraldarvefsins í leit að einhverjum nýjum sannleik, nýjum aðferðum, nýjum uppskriftum. En ég hef enn ekki fundið lækningu.

Hvað um það, þessar pælingar eru ekki á dagskránni í dag, í dag er það afmælispartý á Jelly Totz.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað mér finnst þú flott og dugleg. Komin í favourites.