mánudagur, 20. desember 2010

Ég ætla að setja það hér mamma.
Í gær var brotið blað í sögu fjölskyldunnar. Við skreyttum tréð í gærkvöld. Ég er alin upp við að Kiwanis jólasveinarnir komi með tréð á Þorláksmessu og það er ekki skreytt fyrr. Ég ímynda mér að kannski hafi þeir flestir ekki verið komnir í land fyrr en þá og þessvegna ekki hægt að fara með trén í hús fyrr. Það var alltaf svakalegt stuð á þeim, stuð sem ég fattaði ekki fyrr en árum seinna að kom mestmegnis til af jólaglöggi og einhverjum göróttum drykkjum. Mér datt í hug um daginn að eiginkonur þessara jólasveina hafi verið umburðalyndari og skilningsríkari en ungar eiginkonur í dag; ég hef það einhvernvegin á tilfinningunni að nútíma Kiwanis eiginkonur myndu ekki líða fylleri í Þorláksmessu og þynnku á Aðfangadag. Að skreyta tréð er svona í mínum huga lokapunkturinn eða hátindurinn á skrautinu og það sem allt hitt svona leiðir upp að. Ég er afskaplega fastheldin á siði og venjur og það að búa hér í Wales hefur gert jólasiðina jafnvel enn mikilvægari fyrir mig. Mig langar svo að halda eins íslensk jól og mögulegt er, aðallega til að fá bernskujólin mín endurupplifuð, smávegis til að Láki alist upp alsiðaður í íslenskum venjum og að hluta til vegna þess að mér finnast bresk jól ömurleg. En það kom líka í ljós að við getum búið til okkar eigin siði og venjur sem samt væru íslensk og þar sem að hér eru engir Kiwanis jólasveinar, við fórum sjálf og völdum tré til að höggva og drógum svo hingað heim, þá er í raun ekkert sem segir að við megum ekki búa til okkar eigin hefðir í sambandi við tréð. Ég á svo mikið af fallegu skrauti sem allt er tengt einhverri góðri minningu og það er eiginlega synd að það fái ekki að njóta sín sem lengst. Ég tók því þá ákvörðun að tréð myndi héðan í frá fara upp síðasta aðventusunnudaginn. Við kveikjum svo bara á ljósunum á því með viðhöfn á aðfangadag. Það er fínn síður og alveg sérstakur fyrir okkur Jones-fjölskylduna. Og ég er alsæl með ákvörðunina. "Kertin stand´á grænum greinum, gul og rauð og blá..."

1 ummæli:

Helga sagði...

ohh en notalegt :)

Langar bara að kvitta fyrir innlitið, fann þig út frá Röggu nagla og hef verið "húkkt" síðan þá :)
... tók laugardagskvöldið/nóttina og las bloggið frá upphafi! Alveg með eindæmum frábær penni! Tala nú ekki um árangurinn! TIL HAMINGJU segji ég nú bara :)

Knús frá Kaupmannahöfn