sunnudagur, 19. desember 2010

Joseph Pilates gerir teaser
Eftir mjög ánægjuleg endurkynni við poppadums, naan, masala sósu og síðasta Nóa Kropps pokann í dalnum ákvað ég í morgun að það væri líka grjótmyljandi stemning fyrir pilates. Það er ár og öld síðan ég síðast setti þann disk í tækið enda var hann þar sem ég byrjaði hér fyrir tæpum tveimur árum síðan. Ég man að hafa hugsað með mér að pilates væri bráðsniðugt fyrir svona svaðalega hlussu eins og mig því það væri lítið sem ekkert álag á hné og hopp var ekki innifalið. Þetta leit meira að segja bara vel út; maður liggur á mjúkri mottu og veifar skönkunum eitthvað út í loftið, how hard can it be? Ég var að sjálfsögðu hissa þegar í ljós kom að þetta var heilmikið erfitt og aðallega vegna þess að allt spikið var svo mikið að flækjast fyrir mér. Ég er kattliðug og get beygt mig í báðar áttir en maginn stoppaði mig frá að geta beygt mig og bukkað eins og ætlast var til. Fyrir utan að "core" vöðvarnir mínir voru bara ekki að taka þátt í þessu. En eins er það með pilates og allt annað, æfingin skapar meistarann og þegar ég hætti að nota diskinn var ég farin að geta gert allar æfingarnar nema þrjár sem ég gerði enn með auðveldara forminu. Ég var því bæði glöð og stolt í morgun þegar í ljós koma að ég get núna gert allar æfingarnar, þar með talinn "teaser" sem er drulluerfið magaæfing. Og skemmtilegast að sjálfsögðu að maginn flækist nánast ekkert fyrir mér. Þegar ég ligg á bakinu er ég alveg slétt og sé og finn mjaðmabein. Þau get ég líka fundið upprétt þó þau sjáist ekki. Ótrúlegt að ég sé með svoleiðis. Ótrúlegt.

Ég hlakka til að takast á við daginn í dag. Sunnudagar eru vanalega valfrjálsir en af því að ég notaði frímiðann í gær er það ekkert sem heitir en að fara aftur í prógramm í dag. Pilates æfingin kom mér í rétta, jákvæða gírinn og ég er tilbúin til að vera hér heima í allan dag án þess að stara inn í eldhússkápana. Ég hef nóg að stússast fyrir utan að mantran í dag hljómar inni í mér; 89.9 fyrir áramót, 89.9 fyrir áramót. Ég stefni enn á það markmið að hafa lést um 10 kíló árið 2010. 10 á 2010. Það er ekkert til of mikils ætlast.

Engin ummæli: