fimmtudagur, 7. apríl 2011

Ég skrifa þessa litlu pistla mína til að koma reiður á hugsanir mínar, ég hugsa allt of mikið og út í eitt en þegar ég er búin að setja niður á blað þá skil ég betur hvert ég er að fara. Vanalega finn ég litla þörf til að útskýra sjálfa mig eða skoðanir mínar, ég hef nefnilega með árunum komist að þeirri niðurstöðu að hætta að hafa skoðanir á flestum hlutum. Heimurinn er allt of fullur af gráum svæðum til þess að maður sé stanslaust í þeirri aðstöðu að geta tekið afstöðu. Pistillinn sem hér fer á eftir er örlítið frábrugðin því sem ég vanalega set hér niður að því leytinu að ég ætla að svara beinni spurningu. Ef lesendur eru ekki sammála mér þá er það hið besta mál, tilgangurinn er ekki að kveikja á heitum umræðum, rökstólum og hvað þá rifrildi. Ég myndi helst vilja að fólk myndi lesa sér til um efnið og mynda sér svo sína eigin skoðun. Sem það er sátt við sjálft. Ég ætla heldur ekki að verja mikið skoðanir mínar, þær eru myndaðar á sama hátt og flest venjulegt fólk myndar sér skoðanir, það er að segja með fordómum, greindarskorti, vanþekkingu á efninu, fyrirfram ákveðnum hugmyndum um niðurstöðuna og skammsýni. Við höfum flest einfaldlega ekki tíma til að skoða allar hliðar allra mála og mynda vel ígrundaða skoðun á flestum málefnalegum hlutum. Ég vil heldur ekki að fólk fái hægðatregðu af reiði ef það er ekki sammála mér. Það á að taka þessu öllu með ró.

Spurningin var afhverju ég snerti ekki á agavesírópi.

Agave er unnið úr kaktusplöntu, þeirri sömu og tequila er unnið úr og er gert að miklu leyti til á sama hátt og hlynsýróp, safinn (sap) er tekinn úr plöntunni og soðinn þar til eftir stendur sýrópið. Afurðin er 90% frúktósi og 10% glúkósi. Til samanburðar er hvítur sykur 50/50 og High Fructose Corn Syrup (þetta rosa vonda efni) er 55/45.

Ofneysla á frúktósa hefur verið tengd við sykursýki, sykurfíkn, hjartasjúkdómum, lifrarsjúkdómum og er það sem veldur spiklagi um miðjuna á fólki, fitan sem er hvað mest heilsuspillandi. Þegar við borðum ávöxt eins og t.d epli fáum við frúktósa en við fáum líka trefjar og vítamín og andoxunarefni. Það fáum við ekki með hreinum frúktósa eins og agave er. Það er semsagt verið að bæta á eld sykurfíkilsins með nánast hreinum frúktósa. Það að agave sé "low glycemic" þ.a.e.s. að hann hækki ekki blóðsykur hefur lítið að segja á móti þeim meltingarlegu áhrifum sem neysla á hreinum frúktósa gerir. Mýs sem voru á háu frúktósa mataræði voru með lifur á við áfengissjúkling því lifrin getur ekki unnið úr öllum frúktósanum. (Teff, KL; Elliott SS, Tschöp M, Kieffer TJ, Rader D, Heiman M, Townsend RR, Keim NL, D'Alessio D, Havel PJ (June 2004). "Dietary fructose reduces circulating insulin and leptin, attenuates postprandial suppression of ghrelin, and increases triglycerides in women". J Clin Endocrinol Metab. 89 (6): 2963–72)

Ég trúi á hóflegt át - þar með talið á efnum eins og agave - ef þú telur að þú getir ráðið við að fá þetta mikinn frúktósa þá er það þín ákvörðun. Það er ekkert að því að neyta hans í hófi. Það sem ég þoli ekki við hluti eins og agave er misskilningurinn sem þeim fylgir. Fólk heldur að það sé að kaupa heilsuvöru af því að markaðsetningin er slík. Maður borgar langt yfir eðlilegu markaðsverði fyrir óæðri vöru sem er login til sem heilsusamleg. Flestir nota svo allt of mikið af efninu og eru engu betur settir en ef þeir hefðu bara haldið áfram að nota sykur. A.m.k með sykur þá veit maður hvar maður stendur og er á varðbergi.

Þessu að auki eru þjóðfélagslegar ástæður fyrir óbeit minni á agave og öðrum slíkum vörum. Þær auka bilið á milli ríkra og fátækra í hinum vestræna heimi og skapa nýja stéttaskiptingu milli millistéttarinnar sem telur sig betri en Macdonaldsétandi lágstétt. Það að falla í þá gryfju að taka snjalla markaðsetningu fram yfir vísindi er áfellisdómur yfir millistéttarmenntafólki sem heldur að það hafi siðferðislega og vitsmunalega yfirburði yfir feita, heimska lýðnum sem flykkist á McDonalds. Þannig geri ég greinarmun á hlynsýrópi og agave, þó þau innihalda sama svívirðilega frúktósamagnið þá er hlynsýróp ekki hluti af þessari "hype" múgsefjun sem á sér stað í neysluóðu þjóðfélagi þar sem allir þurfa að vera smart og með það nýjasta á takteinum.

Og þessvegna snerti ég ekki á agave.

4 ummæli:

Sigrún sagði...

Vá takk fyrir þetta rosalega góða svar :)
Er svo sammála þér með markaðssetninguna og því að fólk kaupir e-ð sem á að vera svo hollt en er það svo alls ekki. Nýjasta dæmið sem er á vörum manna hér heima er Special K.

Nafnlaus sagði...

Hæ frænka, mikið er ég sammála þér með agave sýrópið, en getur þú sagt mét sykurfíklinum hvað er sykurlaust karmellusýróp? hljómar mjög spennandi fyrir mig.


kær kveðja Þórdís Helgadóttir

murta sagði...

Sæl Þórdís, ég hef notað sýróp frá Monin sem ég fæ hér í Bretlandi en mér skilst að sykurlaust.is sem er bæði netverslun og venjuleg búð (í Garðabæ einhverstaðar) selji Torani sýróp ásamt allskonar sykurlausu dóti. Torani þykir víst ægilega gott meðal þeirra sem nota sykurlaus sýróp og fæst í allskonar bragðtegundum.

ragganagli sagði...

Svo fást sykurlaus síróp í tonnavís hjá Kaffitar.is.

Góð grein um agave hér: http://www.living-foods.com/articles/agave.html