mánudagur, 25. apríl 2011

Láki með uppskeruna
Þessi þriðja vika í sykurminni lífstíl var áhugaverð. Ég fékk alveg svakalegan hausverk á mánudagsmorgun. Svo slæman að ég gubbaði og varð rangeygð. Hann hélst við fram á miðvikudag. Og ég er svo mikill dorkur að ég setti hann ekki í samhengi við sykurleysi. Ég hélt bara að ég væri veik. Fór út að hlaupa á mánudagskvöld og varð að hætta því hausinn var við það að springa. Fór svo í ræktina eftir vinnu á þriðjudag og gubbaði aftur af hausverk við átökin. Sem betur fer sljákkaði hann svo upp úr miðvikudegi og það var ekki fyrr en þá sem ég setti saman tvo og tvo. Gat verið að hausverkurinn væri svona fráhvarfseinkenni? Ég veit það ekki fyrir víst en það er ágætis útskýring. Á fimmtudag og alveg fram á laugardagskvöld barðist ég svo við sorgmæðina. Þetta var skrýtin tilfinning, svona eins og söknuður eftir liðnum tíma, eða gæludýri sem maður átti sem barn, eða eftir tækifæri sem maður lét úr greipum sér renna. Og ég held að tilfinningin hafi verið kemísk, ekki andleg. Svona eins og maður fékk stundum svona kemískan móral eftir drykkju.

Mini Egg í glærri skál.
Það var svo mjög skemmtilegt að upplifa það að hafa íslenskt súkkulaði og nammi í húsinu og fá sér ekki. (Og er enn til. Í tupperwaredós inni í ísskáp.) Það sem angraði mig var hvað Láki var nettur á þessu. Hann var voða spenntur og æstur að leita að eggjunum en þegar þau voru fundin var það nóg. Hann hafði engan áhuga á að borða. Það gengur svo á móti öllum mínum hugmyndum um páskadagsmorgun að ég stikaði um húsið í angist; Barnið borðar ekki súkkulaði! Hann er að skemma minninguna fyrir mér! En svo reyndi ég að hætta að yfirfæra mínar minningar á hann, ég á að sjálfsögðu að vera þakklát að eiga barn sem er EKKI eins og ég! Mig langaði bara svo að fá að njóta súkkulaðisins í gegnum hann. Það var reyndar líka smávegis fyndið að hann fékk svo líka egg sem var fullt af Mini Eggs og hann heimtaði að setja þau í skál. Eftir allan grátinn á fimmtudag, var ég samt komin með þau í skál á borð. Ég bjó til "SvavaBar" til að vera tilbúin en satt að segja þá þurfti ég ekki mikið að  berjast. Ég var búin að ákveða að fá mér ekki nammi og þá er ekkert meira um það að segja. Það sem ég ákveð, stendur. Ég bakaði reyndar hvítt brauð sem var alveg hrikalega gott og ég fékk mér einni sneið meira en ég ætlaði mér af því en samt ekkert í neinu óhófi. Og ég fæ svona smávegis pervertískt kikk út úr því að vera meinlætamaður. Það að hnykla sjálfstjórnarvöðvann er ótrúlega gefandi. Mér líður alltaf smávegis eins og súperstjörnu þegar ég geri það. Og verkefnið heldur áfram að vera áhugavert. 

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Lukku Láki sætur með eggin sín. Guði sé lof fyrir áhugaleysi hans á að setja þetta ofan í sig. En hvaða málshátt fékk hann?

(Skæpið mitt er komið æi lag.)

Hulda sagði...

jeminn...en skemmtilegt að hann skuli ekki vilja súkkulaðið, það hefur fáránlegt tangarhald á manni...jah allavega mér ;). Súkkulaðihúðað þetta og súkkulaðihúðað hitt...alltaf bezt (já eða verzt;)