sunnudagur, 19. júní 2011

Dagurinn sem hófst á bljúgri auðmýkt endar ekki jafn vel. Ég leyfði öllu því versta inni í mér að taka algerlega yfir og það stendur ekkert eftir af fallegu sálinni sem arkar áfram á hverju sem dynur. Hér dansar bara djöfullinn. Stærsti hlutinn af sjálfri mér er núna yfirkomin af skömm. Hvað er ég að gera með að skrifa hérna um breyttan lífstíl og þykjast vera fyrirmynd og innblástur fyrir aðrar fitubollur þegar ég get ekki einu sinni komist í gegnum smá reiðiskast?

Ég get ekki annað en reynt að skoða hvað það er sem gerist þegar ég verð svona reið inni í mér. Ég veit reyndar afhverju ég er svona reið og ég veit líka hvað ég þarf að gera til að laga það. En málið er að ég nenni ekki að ráðast í þá vinnu akkúrat núna og mig langar bara til að laga reiðina með því að fá mér ís og súkkulaði. Það er svo miklu, miklu auðveldara að laga vandamálið með því að troða því í andlitið á sér. Ég veit reyndar líka að vandamálið hvorki minnkar né lagast og það fer svo sannarlega ekki í burtu og það þarf enn að ráðast í verkið. Og það eina sem gerist ef ég leyfi mér að laga vandann tímabundið með súkkulaði og ís er að lokum þarf ég ekki bara að vinna verkið heldur þarf ég líka að vinna vinnuna sem þarf til að losa mig við kílóin sem koma þegar ég fæ súkkulaði og ís. Það er þessvegna auðveld stærðfræði sem segir manni að sleppa bara namminu. Samt gerði ég það ekki. Og mér datt í hug þegar ég náði mér í skál númer tvö af rjómaís að kannski geri ég þetta vísvitandi. Getur það verið að ég hafi meira gaman af stríðinu en af friðinum? Hvað ef ég innst inni veit að þegar ég næ kjörþyngd þarf ég að fara að leggja orku mína og krafta í önnur verkefni og ég er logandi hrædd um að mér takist ekki að gera það sem ég vil gera. Hvað ef ég verð mjó og verð samt ekki fær um að gera það sem mig langar? Nú hef ég alltaf reynt að segja sjálfri mér að það er ekki samasem merki á milli mjó = hamingja, en engu að síður þá veit ég að eitthvað inni í mér segir mér að ef ég bara næ að verða mjó, ef mér bara tekst það þá hljóti allt hitt að koma af sjálfu sér. Það er bara meira en að segja það að losa sig við hugsunarhátt sem hefur fylgt mér áratugum saman.

Ég er alveg viss um að þessi tregða mín við að ná kjörþyngd er ekki meðvituð. Ég held alveg örugglega að ég vilji ná kjörþyngd. En það er greinilega eitthvað sem heldur aftur af mér. Ég held að ég sé minn eigin hryðjuverkamaður. Þetta er náttúrlega alveg hrikaleg poppsálfræði en ég held samt að ég sé að höggva nokkuð nærri lagi. Kannski held ég innst inni að ef ég held bara áfram að vera feit, þá þarf ég ekki að komast að því hvort ég geti gert allt hitt sem ég þarf að laga. Ég get alltaf bara notað það að vera feit sem "vandamálið mitt" og sleppt því að tækla hitt. Ahh, ég veit ekki. Ég fann allavega ekki svarið á botninum á þessum ísdalli.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við eigum allar svona daga af og til. Það sem skiptir mestu máli er að komast aftur inn á beinu brautina og finna jafnvægið.
Næsta skref eftir það er að finna aðra leið til að losa reiðina :)
Ekki missa þig í sektarkennd yfir þessu. þetta var þín leið til að fá útrás og nú er það búið.
Horfðu fram á veginn ;)
Kv. Gunnhildur

Magga Th. sagði...

Flottar pælingar hjá þér Sava...núna er bara að skríða upp úr botninum á þessum ísdalli og taka straujið í átt að meðvitundinni. En hvar er hún? Innst inni dreymir þig um að verða "mjó" - en hvað er að vera mjór. Er það að geta passað í stærð 6 eða er það að geta litið á sjálfa sig í speglinum og sagt...ég er frábær manneskja í flottu formi, sjálfsörugg, kynþokkinn lekur af mér og ég get allt!

Ok, þú þarft að halda þér á réttum kili, það er komin þreyta í þig, þú ert að mótmæla fíkninni og púkinn situr á skítadallinum og hlær...Leifðu honum að hlæja, gefðu honum langt nef og segðu...."Ég er miklu betri en þú ógeðslegi púki. Kannski vann púkinn þessa umferð, en það verða margar í viðbót og þú ætla að hafa hærra skor...Kommon sence.

murta sagði...

Takk fyrir þetta stelpur, það er allt í lagi með mig :)

Magga, ég þarf aðeins að spá í þennan punkt þinn með að vera sáttur í mínu skinni. Kem með niðurstöðu bráðlega ;)