laugardagur, 18. júní 2011

Ég hef tekið eftir að það hefur verið óvenju mikið af viðtölum við fólk eða fréttir af fólki sem hefur misst einhver kíló í fjölmiðlum að undanförnu. Og í kjölfarið hef ég líka tekið eftir nokkrum pistlum og greinum þar sem fólk sér ástæðu til að kvarta yfir þessum fréttaflutningi. Það er kvartað yfir því að um útlitsdýrkun sé að ræða. Eða sá póll er tekin í hæðina að þetta sé lítið til að hrópa húrra yfir; vita þessar hlussur ekki að þetta einfaldlega kalóríur inn, kalóríur út - borða hollan mat?

Ég skil að í stórum atriðum er þetta rétt og satt. Þetta snýst um kalóríur inn og kalóríur út og það er engum hollt að trúa því að fegurð skapi hamingju. En mergurinn málsins er að ef þetta væri jafn einfalt og kalóríur inn og kalóríur út þá væri ekki til feitt fólk og þangað til grönn manneskja prófar að fara í verslun og komast að því að ekki ein einasta flík í búðinni er nógu stór þá hlusta ég ekki á svona kvabb um að útlit skipti litlu máli.

Þegar ég skoða þennan feril minn þá hefur kalóríutalning í raun verið minnsti þátturinn í því að koma mér á þann stað sem ég er á núna. Fyrir mér hefur þetta snúist um miklu flóknari ferli en það, þetta hefur snúist um að finna sjálfa mig og að skilgreina mig og allt sem ég hef trúað á upp á nýtt. Að draga það ferli niður í einfalda kalóríutalningu er lítilsvirðing við vinnuna sem ég hef unnið.

Það er ekki hægt að sjá utan á manneskju hvort hún er réttsýn eða gjafmild eða ástrík eða gáfuð eða gott foreldri eða hvort hún hleypur hratt, er hraust eða notar eiturlyf. En það er hægt að sjá að manneskja er feit og það er hægt að dæma fólk fyrir það. Þannig að þegar feit manneskja kemst loksins í kjólinn sem segir að hún sé venjuleg útlits, að það sé ekki hægt að dæma hana lengur er nema skrýtið að hún vilji fagna þeim áfanga? Það er bara ekki jafn mikilvægt út á við að hreykja sér af því að geta loksins hlaupið kílómetrann á sex mínútum eða tekið 40 kíló í bekkpressu.

Ég veit að vísindin segja að þetta er einfalt mál. En fyrir mitt leyti þá er það eina sem einfalt við þetta að núna get ég verið sæt í kjól sem ég keypti í venjulegri búð.

4 ummæli:

Guðrún sagði...

Yndið mitt, pælingarnar þinar eru engu lagi líkar. Þú átt skilið að fá allar þær orðuveitingar sem búið er að finna upp á. Reyndar áttu þær allar í mínum huga.

Nafnlaus sagði...

Svo hjartanlega sammála þér ;0)

Nafnlaus sagði...

Hæ Svava
Er ekki rétt munað hjá mér að endar á brauði séu minna fitandi en miðjan?
Kalli

murta sagði...

Jú, brauðrass er bestur :) xx