mánudagur, 6. júní 2011

Enn og aftur krossaði ég mig og þakkaði öllum góðum vættum fyrir nýja lífstílinn. Við fórum í sund í gær í nýja laug þar sem við höfðum heyrt af heljarinnar vatnsrennibraut sem okkur langaði að prófa. Rennibrautin alveg frábær og í staðinn fyrir að þrykkja sundbol upp á milli kinna til að ná sem mestum hraða (trix sem ég lærði af börnunum í Þolló) þá var farið niður sitjandi á uppblásnum hring. Og ég gat ekki annað en hugsað í tólfta skiptið sem við Láki hlupum upp stigann að rennibrautinni að fyrir tveimur árum síðan hefði þetta sjálfsagt ekki gerst. Ég hefði farið í sundbol og látið mig hafa það að sýna mig í honum, það var kannski ekki skemmtilegt en ég hefði gert það. Og ég hefði sjálfsagt getað klifið stigann tólf sinnum, það hefði verið erfitt en ég hefði gert það fyrir Láka. En ég hefði ekki getað beygt mig niður til að setjast í hringinn. Til þess voru hnén of veikburða. Og ég hefði aldrei komið rassinum fyrir í hringnum. Ég hefði verið skelfingu lostin og séð fyrir mér "America´s funnies homevideos" atriði þar sem feita konan situr föst í uppblásinni slöngunni og getur sig hvergi hrært. Og ég hefði aldrei getað þeyst niður brautina vegna þess að ég hefði ekki getað staðið aftur upp með hringinn á rassinum í sleipu vatninu þegar niður var komið. Og þess vegna hefði ég þurft að sleppa sundferðinni. Ég sit hérna núna og reyni að hugsa upp hluti sem eru jákvæðir við það að vera svona feit. Það er nefnilega að bresta í mér hjartað af sorg yfir því að hugsa stanslaust svona illa til gömlu Svövu Ránar, mér þykir nefnilega svo vænt um hana. Það getur ekki verið að það sé alslæmt að vera feitur. Maður flýtur til dæmis mjög vel. Og svo er manni sjaldan kalt. En það allra jákvæðasta sem mér dettur í hug er að gamla Svava Rán tók alla vega af skarið, steig út úr viðjum vanans og hóf þetta ferðalag. Og fyrir það er hún hetjan mín.

5 ummæli:

Hanna sagði...

Gamla og nýja Svava Rán bera líka sömu sál og hún er svo falleg og breytist ekki þrátt fyrir gamlan eða nýjan lífsstíl.
Knús
H

Nafnlaus sagði...

Ég elska bloggið þitt! Þú ert svo vel máli farin, raunsæ, skynsöm og húmoristi! Dáist að þér :) OG blómkáls"pastað" er mesta snilld í heimi, eldaði það í annað skiptið í gærkvöldi :)

Kveðja,
Soffía (Naglafrænka)

Nafnlaus sagði...

Vá, var að kynnast síðunni þinni og vá hvað þú ert flott!! Er í sama pakkanum, er búin að missa 42 kg frá því ég var þyngst og á þónokkur eftir enn... Keep up the good work!!!

murta sagði...

Knús til þín Hanna mín, þú ert alltaf svo hvetjandi :)

takk fyrir innlitið stelpur xx

Nafnlaus sagði...

Klárlega hvatning að lesa bloggið þitt.. engar öfgar í neina átt! Frábært árangur hjá þér og verður gaman að fylgjast með þér áfram.