|
Uuummmm.... |
Mikið sem ég skil ítölsku þjóðina vel að hafa dottið í hug að blanda saman tómötum við hvítlauk. Það er eitthvað samhengi sem sólin á við tómata, hvítlauk, ólífuolíu og basilíku. Um leið og sólin reigir sig hérna aðeins í gegnum raka grámóskuna sem vanalega ræður hér ríkjum þrái ég ekkert heitar en bruschetta. Ég er nú ekki sleip í ítölskunni en geri engu að síður ráð fyrir að orðið bruschetta vísi reyndar frekar til ristaða brauðsins en til tómatsalatsins sem sett er ofan á brauðið. Tómatarnir væru pomodoro eitthvað. Hvað sem því líður er nú bara stanno tutti bene hjá mér og ég nota tómatsalatið óspart þó ég setji það bara ofan á brauð svona spari á sunnudögum. Ég borða eiginlega ekki brauð nema bara alveg spari og er þá svo hortug að vilja bara mitt eigið heimabakaða sveitabrauð; ekkert annað stenst kröfur mínar um bragð, áferð, lykt og fegurð og það eitt kemst inn á "worth it" listann minn. Í hitanum í þessari liðnu viku er ég búin að borða 13 tómata, 3 hvítlauksgeira, búnt af basilíku og örugglega hálfan líter af EVOO (extra virgin olive oil). Þetta hef ég borðað með grilluðum kjúkling, með marineruðum kjúklingabaunum, með sojapulsu, með ommilettu og með hrökkbrauði. Alger milljón með þessu öllu saman. En svo loksins núna í hádeginu í dag fékk ég svo alvöru bruschettu. Ég bakaði brauðið, ristaði sneið, nuddaði með hvítlauk og hrúgaði svo tómatsalsanu ofan á. Il Paradiso.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli