þriðjudagur, 7. júní 2011


Þetta er ekki ég á myndinni.
 Árum saman núna hef ég misboðið líkama mínum þannig að nú ber hann þess ótvíræð merki. Ég er alþakin sliti og örum og lumpum og klumpum ýmiskonar. Það fer ekki á milli mála að ég var áður miklu stærri en ég er núna. Ég var áður með reið, rauð og ljót slit þvert yfir undir- og yfirmaga, á upphandleggjum niður i olnbogabót og á lærum innanverðum. Ég tók meira að segja eftir því um daginn að ég er með slit á fyrrverandi undirhöku. Eftir því sem ég hef grennst hafa slitin skánað, þau eru öll núna bara hvít, verða reyndar aðeins meira áberandi ef ég tek sólarlit, þá verða þau svona fallega silfurgrá. Þetta er allt annað líf en þegar ég var alsett eldrauðum rákum. Ég er að mestu leyti sátt við slitin mín. Og að mestu leyti sýnist mér húðin öll vera að skreppa saman. En það var nú samt svo að þar sem ég stóð fyrir framan spegilinn (enn sem oft áður) og grannskoðaði sjálfa mig að mér datt í hug að þetta sem ég kalla yfirmaga er kannski meira en bara óbrætt spik. Getur verið að ég sé með poka af aukahúð? Þegar ég dreg inn magann get ég bæði séð og fundið rifbein. En þessi skrýtni poki hangir alltaf framan á mér alveg sama hvað ég held djúpt niður í mér andanum. Nú er ég enn rúmlega 10 kílóum frá lokamarkmiði þannig að ég ætla að bíða eftir að þau fari áður en ég sker endanlega úr um þetta en ég verð að viðurkenna að ég er farin að hallast nokkuð svaðalega að því að hér sé um skinnpoka að ræða.
Nú er það svosem ekkert ólíklegt. Þó ég sé búin að léttast mjög hægt, og þó ég stundi lyftingar, bæði eitthvað sem hjálpa til við að leyfa húðinni að aðlaga sig,  þá þurfti húðin að þekja heldur meira flæmi en hún gerir núna og húð hefur bara visst mikið náttúrulegt stretch.
Og ef þetta er málið, að ég nái 70 kílóum en með skinnpoka hangandi utan á mér þá þarf ég all svakalega að endurskoða ákvörðun mína um að fara ekki í lýtaaðgerð. Sú ákvörðun var tekin tvíþætt. Ég hélt að ég myndi sleppa við svona húðskvap. Ég var sannfærð um að ég myndi öll skreppa saman. Og ég er skelfingu lostin við tilhugsunina um að láta hakka af mér húðina. Reyndar er skelfingu lostin ekki nógu sterkt til orða tekið. Ég er magnvana af skelfingu. En er í alvörunni gaman að berjast við að verða mannsæmandi útlits til þess eins að uppskera skvapaða húðpoka þar sem sexkippan ætti að vera? Ég hef engar móralskar mótbárur við lýtalækningar - þvert á móti- ég er bara lömuð af ótta. En ég er núna komin á undan minni framtíð, sjáum aðeins hvað setur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ah, man eftir svona pælingum þegar ég var búin að missa mín 54kg! en það var þó ekki maginn, heldur brjóstin blessuð, sem fóru að lafa eins og kaldir og krumpaðir tepokar. þá íhugaði ég aðgerð, en vildi samt láta líða 2 ár frá mörmissinum. sem var eins gott, skömmu síðar eignaðist ég yngri dæturnar tvær og brjóstin á mér fengu sína upprunalegu fyllingu......

gangi þér vel! mkv, sigga

Nafnlaus sagði...

Svava, hvenær kemur bókin út? Þú ert snillingur í rituðu máli þó mig gruni að þú sért snillingur í fleiru.
kveðja
Alda

Steina sagði...

Vá veistu hvað... ég þori varla að viðurkenna það eða jú ég þori því alveg.... ég er svo logandi hrædd við að vera með lafandi húð allstaðar þegar (taktu eftir ég segi samt þegar en ekki ef) ég grennist að ég við eiginlega næstum því frekar vera feit áfram en með lausa og lafandi húð.... Ég er líka eins og þú logandi hrædd við hnífinn þannig að aðgerð væri ekki ofarlega á to-do listanum þannig að ég hef tvo möguleika vera feit eða vera mjó með lafandi húð og ég er næstum því frekar til í að vera feit... hversu sjúkt er það?

murta sagði...

Hlutinn af mér sem segir að ég vilji bara vera hraust og heilbrigð segir skítt með skinnið, hlutinn af mér (unglingurinn sem fékk aldrei að vera sæta gellan) er brjáluð yfir þessu útlitslýti.