sunnudagur, 26. júní 2011

Kjúklingabauna "Maryland Cookies"

1 dós kjúklingabaunir. Allt vatn hellt af dósinni og svo skolaðar rosalega vel í köldu vatni. Ég nuddaði smávegis af ytra lagi utan af sumum þeirra líka.
1/4 bolli kókosolia (hörð)
1 matskeið gott hnetusmjör
Aðeins minna en 1/4 bolli soja mjólk, eða vatn, eða möndlumjólk.
1 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft
1/8 tsk salt
2 tsk sætuefni - pálmasykur, sweet freedom, hlynsýróp, hunang eða jafnvel bara sleppa því.
30- 40g Baker´s Unsweetened Chocolate. Eða bara dekksta, sykurminnsta súkkulaðið sem finnst. Ég hugsa nú að 30 g drepi mann varla. Ekki úr þessu. Það má líka örugglega setja smávegis rúsínur. Hef samt ekki prófað það.
Öllu nema súkkulaði skellt í skál og maukað í frumeindir með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Þannig að þetta sé bara eins og krem. Svo er súkkulaðið bitað niður og hrært saman við maukið. Bökunarpappír settur á plötu og svo er hægt að smella 12 lummum af deigi með teskeið þar á. Bakað við 180 gráður í svona 18 -22 mínútur. Eða þartil smákökurnar eru aðeins runnar til og orðnar harðar að neðan.
Þær geymast frekar illa, ég held að það sé kannski best að setja þær í tupperware og inn í frysti og bara afþýða eftir þörfum. Ég bý bara til hálfan skammt í einu, 6 kökur og geymi í ísskáp.

Hér höfum við svo ljómandi fínt kvöldsnarl með kaffibolla og Derrick í sjónvarpinu. 2 eða 3 kökur eru fínn skammtur. Trefjar, holl fita, prótein...er hægt að biðja um meira?

(Pálmasykur er sykur unninn úr kókósplöntunni, hrár og óunninn og skárri en hvítur sykur. Smá tilraun til að vera trendí og kúl í eldhúsinu. Hann er voða góður á bragðið, meira eins og púðursykur. En er líka bara sykur þegar allt kemur til alls og þarf að fara sparlega í notkun. )

1 ummæli:

Guðrún sagði...

Búin að prófa. Nammi, namm. Varð að breyta pínu því ég nennti ekki út í búð. Notaði frosnar kjúllabaunir í staðinn fyrir úr dós, kókósmjólk í stað þess sem þú stingur upp á, hvítar súkkulaðibaunir(afgangur frá jólum) í stað dökka súkkulaðisins.
Hef ekki borðað svona gúmmulaði lengi. Ætla að frysta restina og gá hvernig þær fara í frystinum.