mánudagur, 27. júní 2011

Egg-og parmesanmúffa með kókóshnetuhveiti
Ég er alltaf að reyna að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt í eldhúsinu. Mér þykir mest til þess þegar ég get notað venjulegan, dags-daglegan mat sem maður getur keypt úti í kaupfélagi og búið til hollar og fallegar samsetningar. Það sem ég kalla orðið venjulegt hefur reyndar breyst aðeins að undanförnu; þannig er quinoa til dæmis orðið að algerri lífsnauðsynjavöru hér upp í skáp. Enda þarf ég ekki lengur að fara í Holland og Barrett eða Julian Graves eða svoleiðis heilsuvöruverlsun til að kaupa það lengur. Það fæst hreinlega orðið úti í ASDA. Mér finnst afskaplega mikilvægt að matavaran sem ég nota sé auðfengin. Ég meika nefnilega ekki það sem ég sé sem matarsnobb. En á sama tíma er ég líka búin að vera að gera tilraunir með efni sem ekki fást hvar sem er. Þannig er ég orðin ómöguleg ef ég á ekki Baker´s Unsweetened Chocolate, ósykrað súkkulaði sem ég þarf að fá sent á netinu. Og svo vil ég helst líka eiga Cacao Nibs, hráan súkkulaðibörk. Að undanförnu hef ég svo líka verið að gera tilraunir með kókóshnetuhveiti. Ég er alltaf að leita að einhverju sem er létt á kolvetnum, en gefur engu að síður þá tilfinningu að ég hafi fengið kolvetni. Þannig eru allar blómkálsuppskriftirnar til komnar. En það er fátt sem kemur í stað hveitis til að búa til brauð, kex og kökur. Kókóshnetuhveiti virðist ætla að vera svarið. Það er unnið úr kókóshnetu, kjötið þurrkað og svo malað og mulið, og nánast öll fita tekin úr ásamt öllum vökva. Eftir stendur hveitikennt efni sem er glútenlaust, nánast kolvetnalaust og gífurlega trefjaríkt. Og hver er ekki til í meiri trefjar? (Minntist ekki einhver á hægðatregðu?...) Trefjar gefa náttúrulega svo svakalega fyllingu. Af því að það er glútenlaust er útilokað að nota það beint í staðinn fyrir hveiti, það breytist bara í þurra steypu og brauðið eða kakan dettur í sundur. Eins og ég komst að. En ef maður setur egg, um það bil eitt egg fyrir hverjar tvær matskeiðar af hveitinu er maður allt í einu komin með efni sem er hægt að baka úr og maður fær brauð eða köku og nánast ekkert kolvetni! Ég er búin að búa til pönnukökur, sætar og savoury, skipta út hveiti í gulrótarköku og quinoa köku, búa til bestu eggjamúffur sem ég hef nokkurntíman smakkað og alveg sérstaklega góðar parmesan kexkökur. Það er búið að vera svo skemmtilegt að prófa sig áfram, að finna hvað virkar og hvað ekki og svo fullvissan um að ég er að fá trefjar og hollustu þegar ég borða afurðina er náttúrulega frábært. Og ég get haldið áfram að kanna heiminn með sleif og skál að ferðafélögum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Veistu hvort kókoshveiti fáist á Íslandi? eða veistu um netverslun sem gæti hugsanlega sent vöruna til íslands?
Kv. Margrét.

Nafnlaus sagði...

Í hvaða verslun færðu þetta úti? fæst þetta nokkuð í whole foods
kv.
Selma

Nafnlaus sagði...

Hljomar spennandi! Vaeri gaman ad sja uppskriftir og vita hvar haegt er ad fa kokoshnetuhveiti herna i UK :-)
Kv, Aslaug

murta sagði...

Nú veit ég ekkert hvað fæst á Íslandi. Amazon sendir þetta til Íslands sem og iherb.com. Hvort það svari kostnaði og fyrirhöfn get ég ekki svarað fyrir.

Ég bý í útnára miklum, svar Bretlands við Bíldudal og hér hef ég ekkert fínt við hendina eins og Whole Foods. Ætlaði einmitt að athuga hvort það væri útibú í Manchester eða Liverpool næst þegar ég fer þangað. Veit svosem ekki hvað þeir selja þar.

Ég pantaði hveitið hjá healthy supplies, en það voru milljón vefsíður að selja þetta. Næst ætla ég að nota itadka.com enda var það langódýrast þar.

Ég skal fara í að vinna að notendavænum uppskriftum :)