þriðjudagur, 28. júní 2011

Ég grét þegar ég reyrði stelpurnar í íþróttahaldarann í morgun. Bókstaflega grenjaði. Sunnudagslautarferð okkar litlu fjölskyldunnar endaði náttúrlega með því að ég tók þennan líka fína humarlit. Ég var með sólarvörnina á lofti allan daginn og sprautaði á Lúkas í gríð og erg en steingleymdi sjálfri mér. Og skaðbrann svona. Hef núna sofið lítið í tvo daga og skipti hlaupadögum út frá mánudegi yfir á þriðjudag í þeirri von að það yrði orðið í lagi með mig í dag. Ekki var nú svo en samt ekki eftir neinu að bíða, vika tvö í Up & Running er hafin. Ég gat illa sveiflað höndum í upphitun og þegar ég átti að fara hratt og hægt til skiptis kjökraði ég við hvert skref enda eins og að vera slegin í bakið með svipu. En þegar það kom að langa hlaupakaflanum var ég svo upptekin við að hugsa um sársaukann í öxlum og baki að ég gleymdi að hugsa það sem ég vanalega hugsa og er eitthvað á þá leið að ég sé að drepast, ég næ ekki andanum, ég er að drepast, ég kemst ekki lengra, aaaaaaargghh! Ég fann allt í einu hvernig andardráttur og skref byrjuðu að spila saman fullkomlega, algerlega í takt og það gerðist eitthvað inni í mér. Ég var hlaupari. Ekki fyrrverandi fitubolla að sanna eitthvað, ekki manneskja í heilsuátaki sem hleypur af því að maður verður að gera einhverjar brennsluæfingar, heldur alvöru hlaupari. Mér fannst eins og ég hefði getað hlaupið svona að eilífu, svo lengi sem ég héldi þessum takti. Pamm Pamm Pamm Pamm. Þvílík upplifun! Þvílíkt frelsi! Og þó ég finni þessa tilfinningu aldrei aftur þá bý ég allla vega að þessari lífsreynslu og ég get seilst inn í mig og fundið hana aftur þegar mig vantar að hressa mig við. Ég brosti allan hringinn á leiðinni heim og klappaði sjálfri mér svo (ofurvarlega) á bakið.

2 ummæli:

Helga sagði...

Mikið sem ég elska bloggið þitt! :)
... knús á hlauparann!

murta sagði...

:D