miðvikudagur, 29. júní 2011
Ég fór í síðasta skiptið í rækt í dag. Það var hálfsorglegt svona fyrir starfsfólksins hönd, þau voru öll enn þarna sem þýðir að varla hafa þau fengið aðra vinnu. Sjálf fór ég með blendnar tilfinningar. Ég kem til með að sakna járnsins, þess er ekki að neita, en ég er líka dauðfegin að geta sleppt því að borga mánaðargjaldið og akkúrat núna er ég svo svag fyrir hlaupum. Sambland af hlaupanámskeiðinu og sólinni kannski, en það er bara að virka fyrir mig núna. Svitastækja og slagsmál um lóðin einhvernvegin farin að missa sjarmann. Ég þarf náttúrulega að finna eitthvað að gera til að halda við þessum líka gífurlega vöðvamassa, en akkúrat núna er ég ekki svakalega nojuð yfir þessu. Svo er það líka hitt sem mér datt í hug. Ég segi að ég vilji bara vera hraust. Mig langar til að vera sterk í daglega lífinu. Mig langar til að geta gengið á fjöll og dansað til morguns og leikið við Lúkas. Mig langar til að vera sátt í eigin skinni, hvað svo sem vigtin segir. Akkúrat núna er ég langt frá því að líða þannig. Akkúrat núna sé ég ekkert nema spik og leiðindi og ég er allsekki sátt í eigin skinni. Jú, ég er mjórri en ég var, en mér finnst ég enn vera hrikalega feit. Ég er hraustari en ég var, en mér finnst ég aldrei gera nóg. Ég segi að þetta sé eilífðarverkefni og að þetta taki langan tíma og ég segi hitt og ég segi þetta. En það sem ég segi og það sem ég hugsa er tvennt ólíkt. Ég get ekki hætt að hugsa um lokamarkmiðið. Og það eina sem mig langar er að ná þessu lokamarkmiði eins fljótt og mögulegt er. Og ég bara verð að laga þennan hugsunarhátt. Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman ef ég er ekki sátt við sjálfa mig? Hvað ef ég næ lokamarkmiðinu og er samt ekki sátt í eigin skinni? Hvað þá? Að þessu leytinu til datt mér í hug að kannski er það ágætt að ég neyðist til að hætta í rækt. Ég held nefnilega að innst inni hafi ég alltaf hugsað að um leið og ég næði lokamarkmiðinu þá myndi ég hætta að borga í ræktina. Að ég hafi ekki í alvörunni séð rækt sem eitthvað sem ég myndi gera að eilífu. Þannig að það er kannski ágætt að ég finni mér hreyfinguna sem ég er tilbúin til að flétta saman við daglegt líf og sem ég get notað til að byrja að reyna að sættast við mig í mínu skinni. Hvað svo sem það þýðir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Við viðhöldum kjötbunkanum á kellingunni með satanískum útiæfingum í sólinni mín kæra. Engin vandamál til... bara lausnir ;)
Skrifa ummæli