föstudagur, 10. júní 2011

Mér fannst það umhugsunarvirði þetta sem mér datt í hug um daginn að syrgja manneskjuna sem ég áður var. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á naflaskoðuninni, hún er það sem hefur komið mér heillri í gegnum þetta allt saman, hún er "allt hitt er bara hugarleikfimi". Það er tvennt sem mér dettur helst í hug. Í fyrsta lagi sé ég eftir stjórnleysinu. Ég sakna þess stundum að geta ekki bara slakað á sjálfstjórnarvöðvanum og hagað mér eins og ég gerði í den. Ég sakna þess að éta. Að fara út í búð og kaupa þrjú súkkulaðistykki, kexpakka og tvo lítra af ís og setjast svo bara niður með góða bók og éta það allt. Og það algerlega án nokkurrar hugsunar um áhrifin. Ekkert nema ég og bragð og áferð. Ég get þetta ekki lengur. Og ég hef í raun voða lítinn áhuga á því svona í praxis, en fæ enn öðruhvoru svona nostalgíu eftir þessari stjórnleysistilfinningu. Eins massívur og sjálfstjórnarvöðvinn minn er orðinn núna (úr stáli) þá langar mig stundum bara til að slaaaaaaaka á. Í öðru lagi datt mér svo í hug að ég sé sjálfa mig sem landráðamann. Ég er búin að svíkja málstaðinn og mitt fólk. Rétt eða rangt þá hef ég alltaf skipt heiminum í tvennt; feitt fólk og mjótt fólk. Og ekki nóg með að ég skipti heiminum í tvennt þá hef ég sett þessa tvo hópa upp sem andstæður. Ég hef alltaf séð þetta sem Feita á móti Mjóum. Ég vs. Þeir. Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að það er fullt af mjóu fólki sem berst við fordóma út af því að vera grannvaxið. Ásakað um að borða ekki nóg og að vera með anorexíu. Og svo er líka fullt af grönnu fólki sem er grannt vegna þess að það kreppir sjálfstjórnarvöðvann náttúrulega og hefur unnið vinnuna sem þarf til að halda sér grönnum. En engu að síður þá get ég ekki að því gert en að vera í varnarstöðu gagnvart mjóum. Grannt fólk er ekki ásakað um leti. Eða slóðaskap. Eða sóðaskap. Grannt fólk þarf ekki að biðjast afsökunar á útliti sínu. Grannt fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að passa í flugvélarsæti eða í sjúkrahússlopp. Grannt fólk getur keypt sér föt þegar því vantar ný föt og þarf ekki að leita að sérverslunum. Grannt fólk þarf ekki að óttast stiga. Eða hitastig úti. Og mjóir skilja okkur feita fólkið ekki. Það segir fáranlegar setningar eins og "þú þarft bara að hreyfa þig meira." Eða "þú ættir að borða aðeins minna." Við deilum lífsreynslu sem mjóir koma aldrei til með að skilja.
Ég hef aldrei beðist afsökunar á útliti mínu. Ég var heilbrigð og mér hefur alltaf þótt ég voðalega sæt. Ég vissi að ég væri feit (ekki hversu feit) en ég var alltaf sjálfsörugg og ánægð með mig. Ég var heil. Það var ekkert að mér. Ég var lreyndar líka rosalega góður lygari og laug mest að sjálfri mér en engu að síður þá var ekkert að mér. En allt þetta var ég þrátt fyrir að vera feit. Það fylgdi alltaf hugsuninni. Og það er eitthvað sem grannt fólk þarf ekki að berjast við.
Nú hef ég unnið vinnuna sem þarf til að lifa heilbrigðari lífi með það að leiðarljósi að vera hraust og heilbrigð. Ekki vegna þess að mig langar að vera sæt í kjól. Að vera sæt í kjól er óhjákvæmilegur fylgifiskur. En það veit guð og lukkan að það er ekkert jafn skemmtilegt og að vera sæt í kjól. Ég hef aldrei áður fengið að prófa það. Og því grennri sem ég verð breytist viðmið mín um hvað er feitt og hvað er mjótt. Spurðu 130 kílóa manneskju hvort 95 kíló manneskja sé mjó og svarið er sjálfsagt já. Spurðu 69 kílóa manneskju og svarið er allt annað. Og að undanförnu þar sem ég sný mér ískrandi af kátínu í hringi í nýjum kjól er ég alltaf að setja sjálfa mig neðar og neðar í fitubollu hópinn. Og ég er farin hugsa ljótt um mitt fólk. "Afhverju borðarðu bara ekki minna?" spyr ég í hljóði þegar ég sé feita manneskju. "Ef ég gat það þá geta það allir." Og veit samt á sama tíma að þetta er ekki svo einfalt. Og þetta er að valda mér vandræðum. Ég get ekki sagt lengur að ég sé í flokki feita fólksins. Það fettir upp á nefið og hugsar með sér að ég skilji það ekki lengur, ég deili ekki daglegum þjáningum feita fólksins lengur. En ég er heldur ekki mjótt fólk. Það fólk myndi aldrei skilja mig. Það er bara eitt sem ég get gert núna. Ég ætla að hætta að flokka fólk í feita og mjóa. Ég get ekki verið manneskja sem viðheldur fordómum. Ég verð að minna sjálfa mig á að ég er enn nákvæmlega sama manneskjan. Ég hef bara bætt í þekkingarsarpinn minn. Ég er betri manneskja, ekki vegna þess að ég er mjórri, heldur vegna þess að ég veit meira og ég get meira.

3 ummæli:

ragganagli sagði...

Yndisleg lesning. Þú ert "bar none" uppáhalds penninn min. Það er vandfundin önnur eins hreinskilni og æðruleysi eins og á þínum bæ. Sem fyrrum feitabolla þá skil ég allar þessar pælingar þínar og dásamlegt hvernig þú kemur því frá þér á þinn yndislega húmoríska hátt.

MaggaTh. sagði...

Sama hér,..elska þessa æðruleysispistla þína...sem núverandi feitabolla í ferlegu basli með mataræðið ert þú að redda sálarheill minni...tökum einn dag í einu og njótum þess að vera lifandi í þeim kroppi sem við mótum á hverjum degi. Hugsum vel um sjálfið okkar með jákvæðni og gratís hreinskilni...toppur...knús ti Tjallana

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill og ég er svo ótrúlega sammála þér! Eins og þú værir að skrifa mínar hugsanir.... Ég er einmitt líka svona á milli flokka - ekki mjó en samt ekki beint feit.
Svo gaman að fylgjast með þér.

Kveðja Hulda - Svövu aðdáandi :)