laugardagur, 11. júní 2011

Fylltur kjúklingabaunaborgari
Mikið sem ég elska að borða mat. Og þegar maturinn er hollur og góður og veitir líka þennan þrykk sem maður fær vanalega bara frá einhverju óhollu elska ég hann þess meira. Ég er oft með hamborgara á föstudagskvöldum, það er fljótlegt og einfalt og með hrúgu af góðu salati sé ég oftast ekki eftir að fá ekki brauð. En það er óneitanlegt að brauðlausan hamborgara er vart hægt að nefna hamborgara. Það er eiginlega meira bara kjötbolla með salati. Ekki hef ég í hyggju að fá mér brauð en datt í hug að nota hugmynd frá Heidi Swanson á 101 Cookbooks sem er minn uppáhalds kokkur. Ég bjó til kjúklingabaunaborgara og sneiddi svo í tvennt og notaði borgarann sjálfan sem brauð. Sleppti semsagt kjötinu alveg og fékk í staðinn þennan æðislega rétt.

1 dós kjúklingabaunir
1 egg og 1 eggjahvíta
1/3 bolli blómkál, eða broccoli raspað niður
1 lítill hvítlauksgeiri, maukaður
Allt maukað saman í matvinnsluvél.
1 lítill rauðlaukur mjög fínt skorinn
1 mjög gróf brauðsneið tvíristuð og mulinn
1 mtsk hafrar
góð sletta af tabasco, eða hot sauce eða smá chili
salt og pipar og krydd að eigin vali - steinselja, basil, oregano. Ekkert of bragðsterkt, það á að vera milt bragð af borgurunum til að leyfa fyllingu að njóta sín.
Blanda þessu við baunamaukið og láta sitja í ísskáp í hálftíma til að leyfa brauðinu að sjúga í sig vökva. Móta svo 5 lummur og steikja í ólívuolíu við meðal hita í svona 7-9 mínútur á hvorri hlið. Það má líka stinga þeim inn í ofn í smástund til að bakast enn betur.
Svo eru borgararnir skornir þvert með beittum hníf og fylltir með því sem hugurinn girnist. Ég setti smávegis hvítlaukssósu, chilisultu, ost, steikta sveppi, steiktan lauk, tómat, svartar ólífur og spínat. Ég var að spá í að setja smávegis af kjúklingabringu sem ég átti inni í ísskáp en þess þurfti bara ekkert. Og voilá! Maður kominn með fullkominn borgara. Ég borðaði tvær lummur og stakk hinum í frysti. Geri ráð fyrir að það sé lítið mál að hita upp eða grípa með salati til að nota í hádegismat í vinnu. Glæsilegt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú ert matarsnillingur, þetta ætla ég pottþétt að prófa í nánustu framtíð! gangi þér vel með allt og allt. sigga dóra.

murta sagði...

Þetta var voða gott; en nauðsyn að bæta við góðri sósu, chili eða einhverju þessháttar og það var ekki hægt að halda á þeim. Maður varð að nota hnífapör. Og vera dannaður. uss og svei!