sunnudagur, 12. júní 2011

Ég er búin að vera að spá og spökuléra voðalega mikið þessa vikuna; vanalega væri það komið til að ofáti einhverskonar. Ég borða of mikið og það of mikið af mat sem ég ætti ekki að vera að borða og svo þarf ég að skoða sálina mína til að komast að þvi afhverju ég borðaði of mikið af vitlausum mat. En það hefur ekki verið svo þessa viku, ég get meira að segja sagt að þessi vika var súper hvað mat varðar. Ég fann upp á allskonar áhugaverðum samsetningum, en var á sama tíma ekki heltekin af hugsunum um mat. Á minn mælikvarða það er að segja. Og hvað gerist þegar maður borðar fallegan, hollan og skemmtilegan mat í réttu magni? Jú, maður léttist um hálft kíló. Hver hefði trúað þessu?. Þannig að ég skil ekkert hvaðan spökúleringarnar komu. Definately ekki úr iðrum mér.

Matur átti svo reyndar að vera í aðalhlutverki í dag. Quinoa kakan fullkomnuð og borðuð í morgunmat með hindberjum, bláberjum og grískri jógúrt. Graourrk. (Það er hljóðið sem heyrist í mér á meðan ég borða). Svo ætluðum við litla Jones fjölskyldan í pílagrímsferð til Llangollen. Llan er yndislegur lítill bær hér í næsta nágrenni þar sem er ýmislegt forvitnilegt að sjá og skoða. Í dag ætlaði ég að rölta á milli sérverslana. Af einhverjum ástæðum eru þar búð á búð ofan sem selja forvitnilega matvöru. Fátt veit ég skemmtilegra en bara að skoða og sanka að mér hugmyndum. En við búum í Wales og eins og ég hefði getað sagt mér þegar ég gerði áætlanir þá rignir hér eins og hvergi annarstaðar í heiminum og alltaf þegar maður er búinn að sjá fyrir sér rólegheitarölt í sólskini. Og þó það sé alveg hægt að rölta um í rigningu þá er það óneitanlega ekki jafn skemmtilegt. Ég ætla því að spara mér gúrmei osta og hafrakex bakað með sjávarsalti og balsamic og fara í bíó að sjá Kung Fu Panda 2. Það má vera að Jones-inn sem er 7 ára hafi fengið að velja sunnudags quality time í dag.

Engin ummæli: