föstudagur, 3. júní 2011

Úúú með stút!
Ég var mjóa Svava þegar ég vaknaði í morgun. Mikið sem ég elska mjóu Svövu, hún er öll svona pouty og kúl og mjó og nett og æðisleg. Ég fór að spá í  það sem gerist í líkamanum þá daga sem mjóa Svava horfir á mig tilbaka úr speglinum, ekki var neinn munur á vigtinni frá í gær og í morgun en engu að síður þá var gífurlegur munur á hvernig mér fannst ég sjá sjálfa mig. (Mjóa Svava er reyndar smávegis kjánaleg líka, hún sýgur inn kinnarnar, setur stút á munninn og kreppir saman rassinn og blikkar og snýr sér í hringi. Það er alltaf best að reyna að skilja mjóu Svövu eftir heima. Nógu erfitt er nú að díla við það þegar Krafta Svava tekur yfir og byrjar að hnykla vöðva eða tekur eina og eina hnébeygju fyrir framan fólk. Óumbeðin. Bara vandræðaleg Krafta Svava.) Ég er búin að vera að taka verkefnið af alvöru núna að undanförnu. Og kannski er Mjóa Svava á svæðinu út af því. Ég er búin að vera að kynda bálið. Það er rétt og satt að það þarf að skara í eldinn. Það þarf að passa að glóðirnar deyji ekki út. Og það gerir maður bara með því að fæða eldinn. Maður þarf að mæta í ræktina og gera æfingarnar sínar. Það þýðir lítið að taka frí og pásu og láta eldinn inni í manni deyja út. Á sama hátt þarf að æsa upp eldinn í manni með spennandi mat og nýjum samsetningum. Það þarf að halda áhuganum á hollustufæði brennandi og það gerir maður bara með því að prófa nýtt, prófa sig áfram, halda eldinum við. Svo er það hinn eldurinn sem helst þarf að reyna að slökkva. Og það er nú alveg merkilegt hvað það er erfiðara að slökkva þennan eld en það er að kveikja hinn. Eins og glóandi kol inni í mér þessi stanslausa löngun í sætindi. Alveg sama hvað ég forðast þau og hvað ég er dugleg og hvað ég er flink í huglægu æfingunum, alltaf logar þessi eldur. Alltaf og ávallt. Baráttan við spikið er háð í heilanum. Og það er skrýtið að hugsa til þess að það virðist líka alveg vera huglægt matið á því hvernig mér finnst ég líta út. Og ég fattaði í framhaldi af þessum hugsunum afhverju Mjóa Svava mætti í morgun. Þegar ég kyndi góða bálið og leyfi hinum glóðunum bara að vera í friði þá færist vellíðanin í heilanum yfir í huglægt mat á útlitinu. Og akkúrat núna standa hreinlega af mér eldglæringar.

4 ummæli:

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir sagði...

Komdu sæl og blessuð!
Ég sá tengil á bloggið þitt í pistli frá Röggu Nagla og er ofboðslega hrifin af því sem ég er að lesa hérna hjá þér. Það er heilmikið sem ég á sameiginlegt með þér í sambandi við spikið og baráttuna við það og ætla ég að fylgjast áfram með þessu fína bloggi hjá þér.
Gangi þér sem allra best áfram :-)
Kveðja
Ásdís Emilía

murta sagði...

Við erum öll af sama skinni við fitubollurnar :) takk fyrir innlitið.

Nafnlaus sagði...

Svo skemmtilegt blogg hjá þér Svava og gaman að finna að maður er ekki "einn á báti" í baráttunni :) Takk fyrir mig

Kveðja Hulda

Hanna sagði...

Þú drepur mig ... ég sá þær ljóslifandi fyrir mér, Mjóu Svövu og Krafta Svövu - elska þær báðar :-)