fimmtudagur, 21. júlí 2011
Ég hef áhyggjur af því að fara í frí. Að undanförnu hef ég nefnilega bara haft fingurgómatak á sjálfri mér. Að undanförnu hefur mig langað til að borða. Þessi löngun til að borða er miklu djúpstæðari tilfinning en að vera svöng eða að langa í "eitthvað gott". Mig hefur langað til að borða á einhvern hátt sem er mun kröftugri og frumstæðari tilfinning en bara hungur. Og ég get ekki annað en viðurkennt upphátt að ég er greinilega matarfíkill. Ég held reyndar að það sé engin spurning um að maður verði ekki 130 kíló án þess að það sé eitthvað að því hvernig maður notar mat svona í grundvallaratriðum. Mér tekst að mestu leyti að halda í við þessa fíkn mína og ég held að sú staðreynd að ég stunda reglulega líkamsrækt og elda hollan mat hafi leitt mig til þess að trúa því að ég sé ekki fíkill, eða a.m.k. að ég hafi nægilega stjórn á fíkninni til þess að þetta sé ekki vandamál lengur. En mér datt í hug í dag að nú þegar rútínan sem ég legg allt mitt traust á er að fara að riðlast eitthvað til að ég þyrfti kannski að fara að skoða betri stjórn á fíkninni en það sem ég hef gert hingað til. Ég trúi því ekki að ég geti ráðið niðurlögum hennar en ég er líka með það á hreinu að ég geti gert eitthvað til að forðast þennan hringferil sem ég fer í; allt æðislegt ekkert mál, oftrú á velgengni, ofát, baráttan við að ná tökum aftur, líða betur, allt æðislegt ekkert mál, oftrú á velgengni, ofát, barátta... og svo framvegis og framvegis. Ég er greinilega í niðursveiflu akkúrat núna. Tveir sunnudagar í röð þar sem ég lofa sjálfri mér að borða minna en ég svo geri, og vika sem fylgir á eftir þar sem ég borða eins og púritani uppfull iðrunar. Þetta er leiðinlegt ferli og mig langar til að brjótast út úr því. Það fer óskaplega í taugarnar á mér þegar ég stend ekki við það sem ég lofa sjálfri mér. Þegar ég skoða það sem ég hef gert hingað til og hefur skilað mér besta árangrinum er þegar ég breyti hegðunarferli. Og ég er núna greinilega búin að koma mér aftur upp hringrás hegðunar sem er ekki að skila vellíðan, hamingju eða árangri. Ég er að hugsa um að skoða hugleiðslu til að læra tækni til að róa hugann, róa þessa frumhvöt að borða. Ég er vanalega illa tengd við alheiminn og krafta hans, til þess er ég of sjálfhverf, en ég held líka að ég hafi litlu að tapa. Ég hef í þessu ferli mínu opnað hugann (og líkamann) fyrir allskonar nýjum hugmyndum og því ekki hugleiðslu? Og kannski finn ég þetta blessaða jafnvægi sem ég er alltaf að leita að.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli