|
Hvernig stafar maður konnesör? |
Það er ekkert auðveldara en að hugsa um mat sem verðlaun, sem eitthvað sem maður "á skilið" ef maður hefur staðið sig vel einhverstaðar, eða ef manni vantar eitthvað til að nota sem smyrsl á sálina. Ég hugsa enn um mat sem verðlaun. Þetta er hugsunarháttur sem ég er að reyna að breyta á mjög meðvitaðan hátt en hefur tekist svona upp og ofan. Þegar ég fyrst reyndi að byrja að breyta til þá þurfti heldur mikið til svo ég væri ánægð með það sem ég fékk í staðinn fyrir mat. Þannig verðlaunaði ég sjálfa mig með nýrri flík þegar ég hefði kannski áður fengið köku eða snickers. Og eins fínt og það er að fá nýja brók með nokkuð reglulegu millibili þá er náttúrulega ekki langt þangað til að það fer að kreppa að veskinu. Og ég þurfti að láta mér detta eitthvað annað í hug. Það þarf að vera eitthvað djúsí og spes, eitthvað sem kemur í stað fyrir mat og er nógu sérstakt til að það sé "trít" en má ekki kosta mikið. Og ég er komin með svarið. Kaffi. Ég er svo lukkuleg að það er komin hérna í Wrexham sérverslun með kaffi ásamt því að nú eru hér tvær kaffihúsakeðjur. Hér er enn ekki almennilegt sjálfstætt kaffihús en ég bíð bara róleg eftir því. Þannig að núna er ég að þykjast að vera svona kaffi connoisseur. Kaupi sem verðlaun mismunandi tegundir af kaffi, helli upp á með viðhöfn og smakka spekingslega á. Þetta finnst mér óskaplega gaman og góður kaffibolli dugar langt til sem dægrastytting þegar mig langar í einhverja vitleysuna. Ég er búin að búa mér til svona ritual í kringum kvöldkaffibollann minn og ég virðist fúnkera best þegar ég fylgi ákveðnum og settum reglum. Og þetta ritúal hefur ekkert með mat að gera. Ljómandi alveg hreint.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli